132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[14:20]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þessu ákvæði í 1. gr. um gjöld vegna mála á grundvelli laga um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum. Hins vegar set ég allan fyrirvara við 2. gr. frumvarpsins um stórhækkun á þeim gjöldum sem á að taka af fólki sem sækir um íslenskan ríkisborgararétt. Mér þykir þetta nokkuð mikil hækkun, mér telst til að hún sé eitthvað nálægt 700% á einu bretti. Tíu þúsund krónur virðast kannski ekki vera miklir peningar en ég mundi vilja fá skýringar hjá hæstv. fjármálaráðherra hvað liggur að baki þessari upphæð. Af hverju er upphæðin 10 þús. kr.? Ekki er það vegna þess að það er bara þannig á Norðurlöndunum heldur hlýtur að liggja fyrir einhver athugun á kostnaði þarna á bak við. Mér finnst að við ættum að fagna þeim sem sækja um íslenskan ríkisborgararétt, fagna því að fólk flytji til landsins. Það eykur fjölbreytnina, það er mannauður fólginn í því fólki og mér finnst fullkominn óþarfi að byrja á því að rukka þetta fólk um leið og það tekur þá mikilvægu grundvallarákvörðun að sækja um að gerast íslenskir ríkisborgarar.