132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[14:31]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er nú að verða virkilega vandræðalegt. Eins og það sé hægt að ætlast til þess af mér að ég leggi fram útreikninga fyrir því hvað það kostar að gefa út einhvern pappír, það er sko ekki mitt hlutverk. Það hlýtur að vera hlutverk hæstv. fjármálaráðherra eða fjármálaráðuneytisins. Ég óskaði eftir þeim upplýsingum áðan en fékk því miður ekki. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður ber þetta saman við útgáfu vegabréfa, það er allt annað dæmi. Ég skal benda hv. þingmanni á að það er einmitt nýlega komið í ljós í fréttum að kostnaður við útgáfu vegabréfa hefur stórhækkað, verð á vegabréfum hefur stórhækkað. Við innheimtum allt of lága upphæð fyrir nýju vegabréfin sem á að taka í notkun í apríl. Samt á að hækka þau um 100% í verði og það er vegna þess að sérstaklega Bandaríkjamenn gera nú orðið miklar kröfur um hvernig vegabréf eigi að líta út með lífsýni og alls konar veseni. En ég get ekki ímyndað mér að það sé svo dýrt að gefa út eitt ríkisborgarabréf. Það getur vel verið að það sé á löggiltan skjalapappír, ég vona það. En svoleiðis blað kostar nú bara úti í bókabúð eitthvað um 50 krónur og er ekki mjög flókið að gefa út.

Mér finnst þessi málflutningur fyrir neðan allar hellur og ég skil ekkert í fulltrúum Sjálfstæðisflokksins að láta svona.