132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[14:41]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held nú að í annan tíma í þessum sal þyrftum við kannski að ræða, og gefa okkur þá betra tóm til og undirbúa okkur, hvernig við tökum á móti þeim sem flytja til landsins. En vegna þeirrar athugasemdar hv. þm. Hlyns Hallssonar, að þetta gjald væri of hátt og væri til marks um það að við tækjum ekki nógu vel á móti þeim sem væru að koma til landsins, sé ég mig knúna til, vegna þess að ég sit í allsherjarnefnd og hef skoðað þetta, að upplýsa hann um að þeir sem eru að fá ríkisborgararétt allflestir, ef um einstaklinga er að ræða, eru búnir að búa hérlendis í sjö ár. Þeir eru ekki að koma til landsins, þetta eru ekki gjaldtökur af þeim sem eru að koma hingað og heldur ekki þeim sem eru að koma hingað einungis til að vinna í stuttan tíma. Ef þeir eru giftir eða í staðfestri sambúð þurfa þeir að hafa búið hér í þrjú ár og ef þeir eru í skráðri sambúð þurfa þeir að hafa búið hér í fimm ár. Þetta er meginreglan.

Hv. þingmaður spurði líka um skýringu á því hvers vegna gjaldið væri svona hátt og það kemur glöggt fram í lögum um íslenskan ríkisborgararétt vegna þess að þar er fjallað um skilyrðin fyrir því að leyfið, ríkisborgararétturinn, sé gefið út. Þar þarf m.a. að kanna þessi búsetuskilyrði með tilheyrandi gögnum. Einnig þarf að fá fram álit tveggja valinkunnra manna um að viðkomandi sé vel kynntur þar sem hann dvelst. Hann þarf að sýna fram á framfærslu, hann má ekki hafa sætt varðhaldi eða fangelsisrefsingu eða eiga óloknu máli í refsivörslukerfinu og svo koll af kolli. Ég held að þetta skýri fullkomlega umræddu gjaldtöku, tíu þúsund krónurnar, og það er alla vega ljóst að það er ekki bara pappírsins virði, það er vinna af hálfu embættismanna sem liggur þar á bak við og má kannski ætla að það sé síst oftekið.

Varðandi útgáfu (Forseti hringir.) vegabréfa ætla ég að árétta það, (Forseti hringir.) því að hv. þingmanni fannst það gjald temmilegt, að þeir sem fá íslenskan ríkisborgararétt þurfa líka að fá íslenskt vegabréf.