132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[14:44]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Hlynur Hallsson fór út í menningu og menningarlegar hugrenningar varðandi erlenda aðila sem vilja gerast íslenskir ríkisborgarar. Ég ræddi ekkert um það. Ég talaði eingöngu um það, frú forseti, að þeir sem kæmu til Íslands yrðu að sætta sig við að sitja undir nákvæmlega sömu skattgreiðslum og gjöldum og við Íslendingar. Það má svo alltaf deila um það hver á að borga hvað og hvaða upphæðir liggja þar að baki. Það er það sem við tókumst á um.

Það getur vissulega göfgað þjóðfélagið að fá erlenda aðila í miklum mæli sem vilja gerast íslenskir ríkisborgarar en það er hins vegar mjög nauðsynlegt fyrir hv. þingmann úr fylkingunni Vinstri grænum að halda því líka til haga að því fleiri erlenda aðila sem við fáum til landsins því fleiri atvinnutækifæri þurfum við að skapa. Við gerum það náttúrlega ekki með því að tína fjallagrös, það þarf ýmislegt annað að koma til.

Allt um það, það var fyrst og fremst þessi greiðsla en ekki það sem hv. þingmaður gat snúið orðum mínum upp í að ég væri á móti öllum erlendum áhrifum hér á Íslandi og ég væri á móti annarri menningu o.s.frv. Það er út í hött og ég vísa því til föðurhúsanna. Ég ætla að endurtaka það sem ég er að segja, virðulegi forseti, að þeir sem koma hingað til Íslands af erlendri grund og vilja setjast hér að sitji við sama borð og Íslendingar og lagi sig að íslensku þjóðlífi en við ekki að þeirra.