132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[14:46]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að aðeins mildari tónn var í þessari síðustu ræðu hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar. Allt tal um einhver fjallagrös og þess háttar er náttúrlega bara brandari. Ég get til upplýsingar bent hv. þingmanni á að það eru býsna margir t.d. í mínum heimabæ, Akureyri, sem hafa atvinnu af því að vinna úr fjallagrösum og skal ekkert hafa það neitt í flimtingum. Það er einmitt atvinnugrein sem ég held að verði mjög vaxandi. (GHall: Við lifum ekki af því einu saman.) Það er enginn að tala um að lifa af því einu saman. Hverjum ætti að detta það í hug að öll þjóðin eigi að lifa af því að tína fjallagrös? Þetta er náttúrlega þvílíkur útúrsnúningur og brandari að ég veit ekki hver er í helgarskapi hérna í dag.

Hv. þingmaður kom inn á það að við ættum að borga öll sömu skatta og skyldur en ég vil þá benda hv. þingmanni á að við Íslendingar þurfum ekki að borga þennan tíuþúsundkall fyrir ríkisborgararéttinn því að við erum jú fædd hérna og þurfum ekki að sækja um hann. Þetta eru því aukaálögur á þá sem flytjast hingað. (GHall: Fæðingarkostnaður er nú nokkur skal ég segja þér.)