132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[14:48]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum. Þetta er gamall kunningi hér í þingsölum. Reglulega fáum við inn frumvörp um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs og oftast er það nú þannig að verið er að færa aukatekjurnar upp með verðlagi, aukatekjur ríkissjóðs eru verðtryggðar í mörgum tilvikum og fróðlegt að sjá þá stefnu hjá þeim sem stýra ríkisfjármálum að tekjur þurfi að vera verðtryggðar og passa vel upp á það. Það hefur oft komið fram í umræðum um aukatekjur að nauðsynlegt sé að verðtryggja þær en þegar við horfum síðan á eitthvað sem heitir persónuafsláttur eða skattleysismörk þá er ekki sama þörf uppi um að verðtryggja eins og með aukatekjurnar.

Maður veltir fyrir sér þegar maður sér frumvarp eins og þetta koma inn, þar sem verið er að hækka talsvert mikið gjöld sem ríkið leggur á ákveðinn hóp einstaklinga sem þurfa á þjónustu ríkisins að halda, hvort ástandið í ríkisfjármálum gæti verið með þeim hætti að nauðsynlegt sé að ná í hverja einustu krónu og kreista út til síðustu krónu fyrir þá þjónustu sem ríkið veitir, en það er nú einu sinni ekki svo. Við sem höfum talsverðan áhuga á fjármálum ríkisins og veltum fyrir okkur þeirri þróun sem í þeim hefur verið undanfarin tíu, fimmtán ár vitum öll að tekjur ríkisins hafa vaxið verulega að raungildi frá því sem þær áður voru. Ætli þær séu ekki núna u.þ.b. í raunkrónum helmingi hærri á hverjum einasta degi en þær voru fyrir einum tólf, fimmtán árum síðan. Það er mikil breyting og breyting til bóta en um leið hljótum við að gera þá kröfu til þeirra sem stýra ríkisfjármálum þegar fram koma í sölum Alþingis frumvörp um hækkun á tekjum, að þeim fylgi þá rökstuðningur um af hverju þarf að hækka akkúrat þær tekjur sem verið er að tala um.

Frumvarpið sem hér liggur fyrir tekur á aðallega tvennu. Annars vegar er verið að setja nýtt gjald sem hægt verður að rukka samkvæmt lögum um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum. Ég kann ekki að meta það gjald sem lagt er fyrir hér, 3.900 kr. og 6.300 kr., en vísað er í það í athugasemdum við frumvarpið að þetta séu gjöld sem eru samstæð gjöldum fyrir svipaða vinnu í öðrum málum og tek ég það bara gott og gilt.

Í 2. gr. aftur á móti er verið að tala um gjöld fyrir annars vegar umsókn og tilkynningu um íslenskan ríkisborgararétt og hins vegar fyrir EES-dvalarleyfi bæði í upphafi og síðan framlengingu á EES-dvalarleyfinu. Þá staldrar maður aðeins við og veltir fyrir sér hvað verið er að gera. Hér er verið að festa í lög að greiða þurfi 10 þús. kr. fyrir umsókn um íslenskan ríkisborgararétt. Áður þurfti að greiða 1.350 kr. fyrir sömu umsókn. Af hverju þessi mikla hækkun? Ég held að nauðsynlegt sé fyrir hæstv. fjármálaráðherra að útskýra það af hverju kostnaður hefur vaxið svona gífurlega við að taka á móti umsókn um íslenskan ríkisborgararétt eða hvort kostnaðurinn hafi alltaf verið svona mikill og ekki verið greitt í samræmi við kostnaðinn hingað til.

Þegar maður skoðar mismuninn á gjaldinu fyrir það að sækja um íslenskan ríkisborgararétt eða tilkynna um íslenskan ríkisborgararétt þá munar þar helming, 10 þús. kr. fyrir umsókn en 5 þús. kr. ef eingöngu er um tilkynningu að ræða, væntanlega þá í tilfellum þeirra aðila sem eiga rétt á íslenskum ríkisborgararétti og fá hann nánast sjálfkrafa og eingöngu er verið að tilkynna nýjan ríkisborgara inn. En í hinum tilfellunum, eins og segir í athugasemdum við lagafrumvarpið, þarf að senda umsókn til umsagnar hjá Útlendingastofnun og ríkislögreglustjóra. Það þurfi ekki að gera þegar um tilkynningu er að ræða. Með öðrum orðum, draga má þá ályktun af upphæðunum í frumvarpstextanum að 5 þús. kr. kosti að senda þetta til umsagnar hjá Útlendingastofnun og ríkislögreglustjóra. Þá veltir maður fyrir sér: Eru það 2.500 kr. á hvorum stað? Er kostnaðurinn meiri í Útlendingastofnun, eða hjá ríkislögreglustjóra? Ég geri þá kröfu til þeirra sem stjórna ríkisfjármálum og gefa sig út fyrir ábyrga stjórnun þeirra að þeir setji ekki gjöld eða álögur í gjaldskrá nema sýna fram á þann kostnað sem ríkið verður fyrir og að verið sé að rukka einfaldlega fyrir áföllnum kostnaði eða þeim kostnaði sem vænta má að þessi gjörningur hafi í för með sér, og það sé bara eðlilegt og sjálfsagt ef ekki koma til nein félagsleg sjónarmið að einstaklingurinn sem þarf á þessum réttindum að halda greiði fyrir þann raunkostnað. Því hefði ég gaman af, frú forseti, ef hæstv. fjármálaráðherra gæti útskýrt fyrir okkur þennan 5 þús. kr. mun sem verður til við að senda þarf umsókn til umsagnar á tveimur stöðum og einhver rök fyrir því að þetta sé munurinn á kostnaði.

Annað sem vakti athygli mína er að gjaldskráin sem verið er að kynna í þessu frumvarpi til laga gerir ráð fyrir að fyrir afgreiðslu umsóknar um EES-dvalarleyfi fyrir 18 ára og eldri þurfi að borga 4 þús. kr. en ef verið er að sækja um fyrstu umsókn EES-dvalarleyfis fyrir yngri en 18 ára þá kostar það 2 þús. kr. Maður hefði haldið að þetta mundi kosta það sama fyrir hvern einstakling burt séð frá aldri og veltir því fyrir sér hvort það geti verið að gjaldskráin sé þá sett miðað við þyngd, því að þeir sem eru 18 og yngri eru léttari en þeir sem eru 18 ára og eldri í flestum tilvikum. Alla vega einhver málefnaleg rök fyrir þessum mun og þeim upphæðum sem þarna eru.

Það segir í umsögn um frumvarpið frá Fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs sem eru í samræmi við forsendur tekjuáætlunar fjárlagafrumvarps fyrir árið 2006.“

Með öðrum orðum, búið er að gera ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2006 að þessar hækkanir komi til. Þar með hlýtur hæstv. fjármálaráðherra að geta sagt okkur sem sitjum hér hverjar eru áætlaðar heildartekjur af þessum gjöldum sem hér er verið að setja á í fyrsta skipti í einu tilviki og hækka verulega í öðru. Ef þetta hefur komið inn í forsendur tekjuáætlunar fyrir fjárlagafrumvarpið fyrir þetta ár hlýtur sú tala að liggja fyrir.

Síðan segir í umsögninni: „Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það að lögum.“ Með öðrum orðum, það koma ekki til nein ný störf, ekki kemur til neinn nýr hugbúnaður, ekki koma til nein aukin umsvif á þessum stofnunum sem sjá um að gefa út þau leyfi sem hér um ræðir, en tekjurnar eiga að aukast helling. Því veltir maður fyrir sér, ef gjöldin eða kostnaðurinn við að taka á móti umsókn um ríkisborgararétt eða gefa út dvalarleyfi hefur aukist svona mikið og ekki er gert ráð fyrir auknum kostnaði samkvæmt því sem fjármálaráðuneytið segir í umsögn sinni hlýtur að vera hægt að lækka einhver önnur gjöld í sömu stofnunum á móti. Þetta getur ekki alltaf átt að ganga bara í aðra áttina. Ríkissjóður, sem bólgnar út tekjulega séð, sér þörf til þess að koma hér inn með sérstakt frumvarp til að hækka verulega ákveðin gjöld fyrir ákveðna þjónustu. Hann hlýtur þá að koma um leið með einhverjar hugmyndir um hvað hægt er að spara og hlýtur þá að koma með einhverjar hugmyndir um lækkun á einhverjum aukagjöldum eða aukatekjum ríkissjóðs á sama tíma til að halda þeim ballans sem fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir.

Ef við horfum á þetta frumvarp, ekki bara eins og það liggur fyrir, heldur veltum fyrir okkur samhenginu, hvernig á því standi að nú telji hæstv. fjármálaráðherra þörf á að koma með frumvarp til að hækka verulega gjöld fyrir ákveðna þjónustu ríkisins á sama tíma og ríkið hefur aldrei haft það betra í tekjum en ekki eru lagðar til neinar tillögur um að skera niður annars staðar á móti. Af hverju er verið að gera þetta?

Seinna í dag, frú forseti, munum við ræða frumvarp til laga sem fimm ungir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram einmitt um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Þar kveður svolítið við annan tón. Þar er ekki verið að tala um að nauðsynlegt sé að hækka einhver ákveðin gjöld sem einstaklingar greiða. Nei, það frumvarp gengur út á það að lækka verulega gjöld fyrir að skrá hlutafélög, einkahlutafélög og hlutafélög. Ákveðinn fjöldi þingmanna Sjálfstæðisflokksins telur eðlilegt og sjálfsagt að lækka tekjur ríkisins sem ríkið hefur fyrir skráningu á hlutafélögum, einkahlutafélögum og öðrum slíkum. Þetta er gert á sama tíma, á sama degi og hæstv. fjármálaráðherra leggur fram frumvarp til laga um breytingu á sömu lögum þar sem það er talin lífsnauðsyn að hækka nú um einhverja þúsundkalla þjónustu sem einstaklingar njóta.

Þetta er í dúr og moll, frú forseti, við það hvernig við höfum séð fjármálastjórnun og -stefnu ríkisstjórnarinnar hér í þingsölum. Þetta gengur allt í eina átt hvort sem við erum að tala um skattprósentu, hvort við erum að tala um aukatekjur eða hvað við erum að tala um, það skal lækka verulega álögur og gjöld á fyrirtæki en það skal halda þeim eða hækka þau á einstaklinga. Ég held að við getum varla séð skýrar en á þessum degi þar sem þessi tvö frumvörp liggja fyrir á sama tíma akkúrat hvað það er sem ríkisstjórnin hefur verið að gera. Það að annað frumvarpið skuli vera lagt fram af hæstv. fjármálaráðherra en hitt af fimm ungum þingmönnum í Sjálfstæðisflokknum gef ég ekki mikið fyrir. Ég held að þarna sjáum við í raun birtast umræðuna og ákvörðunartökuna eins og er hjá þingflokki Sjálfstæðisflokksins í heild sinni. Það skal létta álögum á fyrirtæki en það skal herða að einstaklingum sem þurfa á þjónustu ríkisins að halda.