132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[15:00]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var á dálítið sérkennilegum nótum sem hv. þm. Jón Gunnarsson lauk ræðu sinni, með því að bera saman frumvarpið sem hér er til umræðu, þ.e. frumvarp fjármálaráðherra um aukatekjur ríkissjóðs og svo aftur annað frumvarp sem varðar aukatekjur ríkissjóðs, sem hann réttilega benti á að við fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðum fram og er á dagskrá síðar í dag. Hann er auðvitað með máli sínu að bera saman gjörsamlega ósambærilega hluti.

Nú vitum við að í lögum um aukatekjur ríkissjóðs er getið um öll aukagjöld sem ríkið leggur á, hvers eðlis svo sem þau eru, og á bak við hvert einstakt gjald standa mjög mismunandi röksemdir og mismunandi forsendur. Þau gjöld sem fjallað er um í frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra eru gjöld þar sem ætla má að kostnaður vegna þeirrar þjónustu sem verið er að veita í viðkomandi tilvikum sé mun hærri en þau lágu gjöld sem lögð hafa verið á til þessa. Í þeim gjöldum sem við fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins erum aftur á móti að fjalla um í frumvarpi okkar, er fjallað sérstaklega um tiltekin skráningargjöld félaga, skráningargjöld fyrirtækja sem eru mun hærri, þ.e. sú þjónusta sem veitt er þegar fyrirtækin eru skráð kostar mun meira. Það er verið að tala um miklu hærri upphæðir en í frumvarpi fjármálaráðherra og það er verið að tala um kostnað sem er miklu hærri en því nemur sem kostar að veita þá þjónustu sem um er að ræða.

Aðalástæðan fyrir því að við lögðum fram þetta frumvarp er að margoft hefur verið bent á að skráningargjöld fyrirtækja eru meðal hindrana við nýsköpun í atvinnulífinu og það er auðvitað það sem við ætlum að laga með því að fá því breytt.