132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[15:11]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvað tveggja mínútna andsvar hjá hæstv. fjármálaráðherra kostar en kannski væri full ástæða til að reikna það út og reyna að reikna þá út miðað við hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar líka því að þeir kosta talsvert minna en ráðherrar per mínútu þar sem þeir standa hér, fyrir ríkið alla vega.

Það er rétt sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að sá sem hér stendur stundaði ráðgjafarstörf í sínu fyrra lífi, ef við getum orðað það svo, áður en hann gerðist þingmaður, og ég veit alveg að það getur stundum verið erfitt að áætla hvað hlutirnir kosta, og ég veit alveg að það getur verið erfitt að áætla hvaða tekjur koma inn. En maður verður samt að gera það, maður verður að reyna að byggja ákvarðanir sínar á áætlunum.

Í þessu efni hefði ég haldið, hvort sem áætlunin yrði 100% rétt eða ekki, að það væri reynt að áætla hve mikill fjöldi sækti um ríkisborgararétt á ári, hve mikill fjöldi sækti um dvalarleyfi hér á ári í fyrsta skipti og endurnýjun, hve mikill fjöldi hefði verið 18 ára og eldri og hve mikill fjöldi væri undir 18 ára aldri, og ég ætla ekkert að fara aftur í mismuninn á þeim gjöldum fyrir að skrá þá sem yngri eru og þá sem eldri eru, það hljóta að vera einhverjar málefnalegar ástæður fyrir því.

Þegar búið er að taka þetta, burt séð frá því hvort menn geti sagt að það verði eins á þessu ári og á síðasta ári þá er þó alla vega komið einhvers konar þýði sem menn geta reiknað út og sagt: Við getum búist við því, ef þetta verður eins og á síðasta ári, að þá verði þetta svona. Og hver var svo kostnaðurinn við þetta? Jú, það er hægt að fara í gegnum það í viðkomandi stofnunum og segja: Það má ætla að kostnaðurinn hafi verið þessi. — Er einhver ballans á milli þeirra tekna sem ríkið ætlar að fá fyrir þetta og þeirra gjalda sem ríkið verður fyrir út af þessari þjónustu? Það finnst mér vera spurning sem eigi fullan rétt á sér og ég er eiginlega hálfhissa á hæstv. ráðherra að hann skuli ekki geta sagt okkur hver er áætlaður kostnaður við að veita þá þjónustu sem hér um ræðir á ársgrundvelli og hverjar tekjurnar hafa verið hingað til fyrir að veita þessa þjónustu og hverjar þær verða ef hækkunin verður eins mikil og hér um ræðir.

Þetta er afskaplega einföld áætlunargerð sem ég hélt (Forseti hringir.) að starfsmenn fjármálaráðuneytisins væru fullfærir um.