132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[15:13]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Allar þessar upplýsingar eru til og sjálfsagt að veita þær og það verður að sjálfsögðu gert í hv. nefnd sé þess óskað.

En af því að hv. þingmaður var að tala um þýði sem væru lögð til grundvallar þá er þetta frumvarp tiltölulega einfalt og lítið en á bak við það eru auðvitað mörg þýði, miklar tölulegar upplýsingar sem það byggist á.

Þetta hérna er fjárlagafrumvarp ársins 2006. Á bak við það eru líka miklu meiri tölfræðilegar upplýsingar en standa á þessum síðum. Er hv. þingmaður að leggja það til að það komi allt inn í þessum þingskjölum? Það er auðvitað fjallað um þessi gögn í þingnefndum og þar eru lagðar fram enn þá meiri upplýsingar, eins miklar upplýsingar og frekast er mögulegt til þess að hv. þingmenn geti kafað ofan í málin. Þar er það auðvitað gert án þess að nokkuð sé þar dregið undan.

Það sem hv. þingmaður er að biðja um er allt saman til og það verður kynnt þó að það sé ekki hér í þingskjölunum og ég held að hann þurfi ekkert að hafa neinar áhyggjur af því. Hann getur svo farið að rifja upp hvernig hann tók á málum þegar hann var rekstrarráðgjafi og nýtt það í störfum sínum hér. Ég hugsa að það fari bara nokkuð vel á því.