132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Brottfall laga um Flugskóla Íslands hf.

480. mál
[15:55]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég vil í byrjun leyfa mér að leiðrétta örlítið hjá hæstv. ráðherra af því sem fram kom í framsögu hans, að kennslan til bóklegs flugs atvinnuflugmanna hefði alfarið verið í höndum Flugmálastjórnar. Það er ekki alls kostar rétt. Þetta var lengi vel samstarfsverkefni Flugmálastjórnar og Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Undirritaður kom nokkuð þar að máli og hafði mikla ánægju af að sinna því verkefni í ágætu samstarfi við Flugmálastjórn.

Fyrst þegar ég leit þetta frumvarp augum leist mér ekkert allt of vel á það. En við ítarlega skoðun hef ég komist að þeirri niðurstöðu að um sé að ræða eðlilegt og rökrétt skref. Í þessu samhengi er rétt að rifja upp að lengi vel var bóklegt flug til atvinnuflugmanns ekki til staðar hér á landi. En í sameiginlegu átaki Fjölbrautaskóla Suðurnesja, þá undir forustu Jóns Böðvarssonar, þáverandi skólameistara, og Flugmálastjórnar, var slíkum samstarfsvettvangi komið á og var um árabil boðið upp á slíkt nám við þann skóla á Suðurnesjum. Reyndin var hins vegar sú að flestir kennarar og nemendur komu annars staðar að en af Suðurnesjum. Þeir voru gjarnan fluttir með sérstakri áætlunarbifreið á milli svæða. Þegar fram liðu stundir, þá af ýmsum ástæðum, var námið flutt inn á Reykjavíkurflugvöll í húsnæði á vegum Flugmálastjórnar. Til að halda því skilvirku, m.a. til að létta ráðningu kennara og þar fram eftir götunum, var ákveðið að breyta skólanum í hlutafélag og flugrekstraraðilar komu að því.

Ég tel að reynslan sýni að það hafi verið gæfuspor. Ég heyri á flugrekstraraðilum að þeir telji að Flugskóli Íslands hf. hafi verið hálfgerð lífæð fyrir flugfélögin sem hér starfa, kraftmikil flugfélög sem hafa verið í miklum vexti og stöðugt þurft að ráða nýja flugmenn til sín. Án þessa skóla hefði sú útrás líklega ekki gengið. Má segja að þróunin hafi, hvað flugið varðar, verið öfug við það sem illu heilli hefur orðið t.d. í kaupskipaflotanum.

Þetta nám hefur dálitla sérstöðu umfram annað nám, þ.e. að vera eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra undir mjög ítarlegu eftirliti Flugmálastjórnar. Flugmálastjórn starfar eftir alþjóðlegum reglum eins og við í samgöngunefnd þekkjum. Líklega er jafnnákvæmt eftirlit í fáum atvinnugreinum og jafnítarlegum stöðlum haldið uppi eins og í fluginu. Má segja að ekkert skref sé hægt að stíga þar án þess að það falli að einhverju slíku eftirliti eða slíkum staðli. Með því að ríkið hefur dregið sig út úr rekstri þessa skóla er ekki annað séð en að hann sé í góðum farvegi og rekstur hans góður. Flugmálastjórn er þar alltumvefjandi og því óhætt að segja að gæðum kennslunnar sé fylgt eftir og því að skilyrði séu uppfyllt. Enda eru það hagsmunir flugrekstraraðila að standast úttektir á kennslu flugskólans. Að öðrum kosti yrðu flugskírteini þeirra ekki viðurkennd í alþjóðasamfélaginu, sem mundi grafa undan starfsemi þeirra.

Að þessu sögðu, virðulegi forseti, lýsi ég yfir fullum stuðningi við málið. Ég tel þetta rökrétt framhald á uppbyggingu menntunar í þessari viðkvæmu en kraftmiklu starfsgrein. Ég hefði viljað sjá, og veit að slíkar raddir heyrast meðal flugrekstraraðila, enn fleiri skref stigin, m.a. að ná inn til landsins aftur námi í flugvirkjun, sem einungis fer fram erlendis. Við skulum hafa í huga hve stór flugflotinn er og hve mörg störf skapast í kringum flugið, ekki bara flugþjónar, flugstjórar og flugmenn, heldur líka störf á jörðu niðri. Fjöldi manns starfar við tæknilegt eftirlit, viðgerðir og alla þá þjónustu sem fylgir flugrekstrinum. Allt kallar þetta á menntun.

Það er fagnaðarefni að heyra meðal flugrekstraraðila áhuga og áætlanir um að byggja upp slíkt nám á Íslandi. Það gæti jafnframt verið útrásarverkefni, alveg eins og við höfum haldið uppi öflugum flugskóla þar sem komið hafa að erlendir nemendur, m.a. frá Noregi og Færeyjum. Þeir hafa sótt sér nám hjá Flugskóla Íslands hf. Við ættum að geta gert svipað með aðra þætti sem tengjast flugrekstri og fengið til okkar nemendur frá öðrum löndum og jafnvel aðstoðað önnur lönd við að þróa sig í þessa átt.

Ég ítreka stuðning minn við þetta frumvarp. Ég tel það rökrétt framhald þeirrar ágætu þróunar sem hefur verið í flugmálum hjá okkur á undanförnum árum.