132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Umferðarlög.

503. mál
[16:21]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg viss um að við getum slegið því föstu eða fullyrt að slysatíðni vegna þungaflutningaökutækja sé gríðarlega há. Slys eru náttúrlega óæskileg og að sjálfsögðu viljum við koma í veg fyrir öll slys. En ég held að það sé afar mikilvægt að tala um þessi málefni út frá staðreyndum.

Hvað varðar það að taka upp strandsiglingar þá hittist nú þannig á að ég átti mjög góðan fund í morgun með forsvarsmönnum eins af flutningafyrirtækjum landsins sem stundar bæði siglingar og vöruflutninga. Það er alveg ljóst að ekki er á dagskrá að taka upp ríkisstyrktar strandsiglingar. Verkefni okkar er því að byggja hratt og vel upp vegakerfið til þess að það anni þessum flutningum og vinna að umferðaröryggismálum á þeim nótum sem ég hef hér lagt til með þessu frumvarpi sem er til umræðu. Það er verkefni okkar. Það er alveg ljóst að meðal þess sem þarf að gera er að tryggja heimildir eftirlitsmanna Vegagerðarinnar til þess að fylgjast með ástandi ökutækjanna hvað varðar farminn og þunga þeirra og hvíldartíma ökumanna. Það má ekki fara á milli mála að hægt sé að framfylgja þeim reglum sem við höfum sett hvað þetta varðar. Þess vegna er frumvarpið lagt fram.