132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Umferðarlög.

503. mál
[16:25]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar ég lærði á bíl og fékk ökuréttindi þá var eitt það allra mikilvægasta sem ökukennarinn brýndi fyrir mér og öðrum, að aka í samræmi við aðstæður. Ég held að það séu ekki rétt skilaboð héðan úr þinginu að verið sé að skella með óeðlilegum hætti skuldinni á ökumenn flutningabíla. Þeir eins og aðrir verða að aka í samræmi við aðstæður. Ef vegirnir eru slæmir, eins og þeir eru víða á Íslandi, jafnvel malarvegir, illfærir oft, erfiðir á vetrum þá verður auðvitað að aka í samræmi við aðstæður. Sama á að gilda um þingmenn sem eru á ferðinni um þjóðvegi landsins. Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður gæti sín vel þegar slíkar aðstæður eru fyrir hendi. Skilaboðin héðan eiga því að vera þau að ökumenn, hverjir sem þeir eru, verða að aka í samræmi við aðstæður.

Nú er það þannig að samkvæmt lögum hafa vegaeftirlitsmenn Vegagerðarinnar heimild til að stöðva. Hv. þingmaður veit væntanlega að þær heimildir eru til staðar. (Gripið fram í.) Heimildir eru til staðar til þess að stöðva þessa bíla og gera tilteknar athuganir á þeim. Þessir eftirlitsmenn eru á sérstökum og sérmerktum bifreiðum þannig að enginn vafi leikur á um þær heimildir.

Hvað varðar tryggingar og annað þá er ekkert nýtt að gerast. Það er einungis verið að bæta því við að vegaeftirlitsmaður sem stöðvar bíl vegna eftirlits með þunga og hvíldartíma, fær heimild til þess að skoða farminn. Viðbótin er sú. Ég tel að þetta sé geysilega mikilvægt mál og það má ekki gerast, að mínu mati, að hv. þingmenn leggist í þann (Forseti hringir.) leiðangur að reyna að koma í veg fyrir afgreiðslu þessa mikilvæga máls eða vekja tortryggni gagnvart þessari löggjöf.