132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Umferðarlög.

503. mál
[16:36]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Frumvarpið sem hv. samgönguráðherra fylgir hér úr hlaði er fyrir margar sakir athyglisvert og flutt á réttum tíma þar sem flutningar hafa að miklu leyti færst á þjóðvegina. Ég tel mjög nauðsynlegt, eins og fram hefur komið, að eftirlitsmenn séu starfandi innan Vegagerðarinnar ásamt lögreglu, sem hefur náttúrlega áfram ótakmarkaðar heimildir til að stöðva bíla. En það er nauðsynlegt í ljósi þess að lögreglan er ekki ofmönnuð. Á stundum, þar sem lítil umferð er, getur verið hentugt að vegaeftirlitsmenn hafi heimild til að stöðva bíla og skoða.

Menn átta sig kannski ekki á að í umferðinni, eins og hún er orðin mikil, eru svokallaðir trukkar eða þungaflutningabílar og vöruflutningabílar, tæplega 8% bifreiðanna. En slys vegna þessara trukka eða þungaflutningabíla hafa hins vegar ekki aukist. Hins vegar hefur óhöppum fjölgað. Það tengist því sem hæstv. samgönguráðherra talaði um, þ.e. eftirlit með farmi. Því miður virðist frágangur á farmi ekki viðunandi.

Það er rétt sem hér hefur komið fram, að megnið af vegakerfinu eru vegirnir aðeins 6,5 metrar á breidd. Hins vegar er unnið er að breytingum á því og þegar komnir þó nokkuð langir vegir sem eru 7,5 metrar á breidd. Það er nauðsynlegt í ljósi þess að vöruflutningar eru komnir á þjóðvegi í svo miklum mæli sem raun ber vitni. En allt er þetta á góðri leið og auðvitað (Forseti hringir.) styð ég þetta frumvarp heils hugar.