132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Umferðarlög.

503. mál
[16:40]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var einmitt á athyglisverðri ráðstefnu um þungaflutninga á vegum og öryggismál. Þar kom margt athyglisvert fram. Auðvitað eru bílstjórar flutningabílanna meðvitaðir um þá hættu sem getur stafað af akstri þeirra gái þeir ekki að sér, í ljósi þess að flestir vegirnir eru um 6,5 metra breiðir. Það er rétt, eins og hv. þingmaður kom inn á, að þeir hafa sýnt mikla árvekni og framúrskarandi framkomu við ökumenn smærri bíla með merkjagjöf, hvenær rétt sé að fara fram úr o.s.frv. Þeir sjá lengra fram og gefa þeim sem vilja komast fram úr merki um hvenær það er óhætt.

En ég held að það sé nauðsynlegt, þar sem margt fólk fer ekki um hina dreifðu byggð á eigin bílum nema í sumarfríum sínum, að bæði Umferðarráð og starfsmannafélög þessara aðila komi sér saman um að reyna að gefa gleggri ábendingar til almennings um þessar merkjagjafir og hvað þær þýða. Ég tel einnig nauðsynlegt að taka á því að leitt verði inn, hjá þungaflutningabílstjórum þegar þeir mæta öðrum bíl eða fólksflutningabíl, að þeim beri skilyrðislaust að hægja mjög á hraða. Því miður kom fram í gær, á þessari ráðstefnu, að dálítill misbrestur væri á því.

Málið sem er hér til umræðu er mjög brýnt og þarft. Ég tek undir það með hæstv. samgönguráðherra að það er nauðsynlegt og gagnlegt að því ljúki hér og verði afgreitt frá hinu háa Alþingi á vordögum.