132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Umferðarlög.

503. mál
[16:49]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég sé ekki betur en — þvert á móti því sem samgönguráðherra hæstv. heldur fram — að skilaboðin séu ákaflega óskýr. Annars vegar er í þessum lögum verið að taka algjörlega fyrir það að menn aki undir áhrifum ólöglegra fíkniefna, og ég styð það, ég tel að það eigi ekki að vera. Fíkniefni eru í fyrsta lagi ólögleg þannig að menn eiga þá ekki að neyta þeirra, og í öðru lagi eiga menn ekki að aka undir áhrifum þeirra eða stjórna hjólhesti, náttúrlegum hesti eða hverju því öðru sem þeir kunna að geta farið sér að voða við og ættu bara ekki að vera úti á götum undir slíkum áhrifum.

Hins vegar er verið að halda áfram að segja: Ja, það er allt í lagi að fá sér svolítið áfengi, fá sér svolítið, það má ekki vera yfir ákveðnum mörkum, en við skulum vera sveigjanleg í þessu. Þar að auki er hæstv. samgönguráðherra með frumvarpinu að segja: Já, og það skiptir mjög miklu máli hvort það er mikið eða lítið áfengi sem menn fá sér. Samgönguráðherra kann að vera að færa sig að siðum eða einhverju áliti í landinu sem hefur lengi gengið út á að það sé allt í lagi að keyra bíl ef maður hefur bara fengið sér einn eða einn og hálfan eða tvo, samkvæmt þeirri skilgreiningu sem menn hafa við sjálfa sig í þeim samkvæmum þar sem þetta iðulega gerist, en kannski ekki ef maður er búinn að drekka heila flösku eða búinn að drekka í þrjá eða fjóra tíma.

Þetta tel ég vera röng skilaboð. Ég tel að skilaboðin eigi að vera þau að menn eigi ekki að aka undir neins konar áhrifum. Ekki undir áhrifum. Það sem mér hefði því fundist að samgönguráðherra hæstv. ætti að vera að gera, hann ætti að vera annaðhvort að lækka þessa prósentu eða afnema hana með öllu, ég kann ekki alveg á tæknina í þessu, í staðinn fyrir að gefa í rauninni meiri sveigjanleika við áfengisdrykkju áður en sest er upp í bíl eða stjórnað öðru ökutæki, meðan hitt er þá algjörlega bannað. Þetta eru óskýr skilaboð og óskýr hugsun á bak við þessa liði í frumvarpinu, sem ég vona að að öðru leyti sé gott.