132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Umferðarlög.

503. mál
[16:51]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit að hv. þm. Mörður Árnason gerir sér að leik að gera þetta óskýrt því að ég efast ekki um að hann skilji þetta mætavel. En til að árétta það sem hér er um að ræða vil ég lesa upp 44. gr. laganna.

Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ökumaður skal vera líkamlega og andlega fær um að stjórna ökutæki því, sem hann fer með.

Enginn má stjórna eða reyna að stjórna ökutæki, ef hann vegna veikinda, hrörnunar, ofreynslu, svefnleysis, neyslu áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna eða annarra orsaka er þannig á sig kominn, að hann er ekki fær um að stjórna ökutækinu örugglega.“

Skilaboðin eru því algjörlega skýr. Læknisfræðin hefur hins vegar búið til tiltekna skilgreiningu á því þegar verið er að mæla áfengi í blóði og eftir því hefur verið farið. Að vísu er þetta mismunandi milli landa en skilaboðin eru algjörlega skýr sem við erum að gefa. Við erum ekki að gefa nokkurn einasta afslátt á þeirri kröfu að menn verða að vera færir um að aka þeim ökutækjum sem þeir setjast undir stýri við, ekki síst hvað varðar það að þeir séu ekki undir annarlegum áhrifum, hvort sem er um að ræða ólögleg eða lögleg vímuefni. Ég er alveg sannfærður um að við hv. þm. Mörður Árnason munum taka höndum saman um að koma þessu rækilega á framfæri við þjóðina.