132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Frumvarp um aukatekjur ríkissjóðs.

[15:15]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Sú umsögn sem við ræðum hér um þetta frumvarp um breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs segir í raun ekkert annað en að í þessu frumvarpi séu lagðar fram ákveðnar breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, þær séu í samræmi við forsendur fjárlaga fyrir árið 2006 og ekki sé gert ráð fyrir því að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Þetta er umsögnin sem fylgir með þessu frumvarpi og ég spurði að því í umræðum hér á föstudaginn hverjar tekjurnar væru þá samkvæmt frumvarpi um fjárlög fyrir árið 2006. Ég fékk engin svör en sem betur fer svaraði hæstv. ráðherra því hér áðan að um væri að ræða 37 millj. kr.

Nú veltir maður fyrir sér þörfinni fyrir að leggja þessar auknu álögur á þennan tiltölulega sérstaka hóp sem hér um ræðir, þ.e. þá sem sækja um ríkisborgararétt á Íslandi og þá sem sækja um dvalarleyfi. Ráðuneytið hlýtur að meta það svo að full ástæða sé til að þetta fólk greiði það sem hér er lagt fram. Ráðuneytið verður að hafa þá skoðun fyrir sig en við hljótum að gera þá kröfu að á bak við slíka útreikninga og gjaldskrá, svona frumvarp um hækkun á tekjum ríkissjóðs liggi einhvers konar útreikningar sem segi að þörf sé á því að hækka þetta svona mikið af því að magnið sé svona mikið, vinnan sé svona mikil, það kosti svona mikið og tekjurnar til þess séu ekki nema þetta litlar og þá þurfi að hækka þær.

Ef hæstv. ráðherra treystir sér ekki í slíkt kostnaðarmat tel ég fulla ástæðu til þess að við færum í lög að vönduð umsögn um kostnað og vönduð umsögn um tekjur þurfi að fylgja þegar svona frumvörp eru lögð fram.

Það er full ástæða til að leggja líka fram umsögn um tekjufrumvörp ríkisstjórnarinnar því að oft og tíðum hafa þau komið hér inn lítil og ekki virst fela í sér miklar álögur eða tekjur fyrir ríkissjóð en þegar upp er staðið hafa þær reynst talsvert miklu meiri en menn gerðu ráð fyrir. Það er full ástæða til að hafa umsögn um það strax í upphafi.