132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Arðsemi Kárahnjúkavirkjunar.

[15:25]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Það er rétt að ég hafði samband við Landsvirkjun fyrir nokkru síðan og spurði um heildarávöxtun fjármagns sem fer í Kárahnjúkavirkjun. Ég fékk það svar að það væri 6,7%. Það var eitthvað aðeins ónákvæmt vegna þess að arðsemiskrafa Landsvirkjunar er 6,9% af heildarfjármagni og í nýjustu útreikningum sem liggja fyrir hjá fyrirtækinu er gert ráð fyrir að heildarávöxtun á fjármagni verði 7,4% miðað við það að álverð sé 1.560 dollarar tonnið og lækki um 0,45% á næstu árum. Núna er álverðið einhvers staðar á bilinu 2.400–2.500 dollarar þannig að það lítur afskaplega vel út um arðsemi þessarar virkjunar. (ÖJ: Fer nú eftir því hvað hún kostar.) Ég vænti þess að hv. þingmaður gleðjist yfir því en auðvitað geta menn verið þannig sinnaðir að þeir vilji gera svo miklar kröfur um arðsemi fjármagnsins að það gangi út fyrir allt sem eðlilegt er.

Ég tel að það sé mjög eðlilegt að gera slíka kröfu og við höfum reynsluna í sambandi við Búrfellsvirkjun á sínum tíma. Hún var byggð fyrir u.þ.b. 40 árum og það fékkst tryggur kaupandi að rafmagninu. Nú er búið að greiða þessa virkjun upp þannig að segja má að arðsemi hennar er gífurleg eftir þessi 40 ár. Hún var nefnilega afskrifuð á þessum tíma þannig að ekki er hægt að líkja þessum fjárfestingum algjörlega við aðrar fjárfestingar í atvinnulífinu.

Ég tel að hér sé um mjög tryggar fjárfestingar að ræða og ég vænti þess að fulltrúi Vinstri grænna geri sig ánægðan með þessa arðsemiskröfu. Eða hvaða arðsemiskröfu gerir sá flokkur almennt til fjármagnsins? Er það miklu hærra?