132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

329. mál
[15:31]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp til laga um breyting á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar stuðlar að því og hefur þann megintilgang að breyta þjóðkirkjulögunum til að auka sjálfstæði kirkjunnar í eigin málum, og er það vel. Ég tel að breyting á lögum sem snúa að málefnum þjóðkirkjunnar þurfi að vinnast í sátt. Við höfum hér umsögn frá Prestafélagi Íslands þar sem það telur að þetta mál hafi ekki farið þá leið eða fengið þá kynningu sem eðlilegt sé og óskað var eftir og meiri kynningu og umræður þurfi innan þjóðkirkjunnar.

Ég tel að til að ná sáttum innan kirkjunnar hefði átt að fresta þessu máli og láta það fá betri kynningu. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði munum því sitja hjá við atkvæðagreiðslu núna.