132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Tæki stjórnvalda til að stuðla að lækkun matvælaverðs á Íslandi.

[15:36]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég hef óskað eftir að taka upp umræðu hér í dag við hæstv. forsætisráðherra um tæki stjórnvalda til að stuðla að lækkun matvælaverðs á Íslandi. Svo árum skiptir hafa íslensk heimili greitt tugum prósentna hærra verð fyrir mat og aðrar nauðsynjavöru en nágrannar þeirra í Evrópu.

Í umræðunni eru ýmsar skýringar gefnar og sökudólgar dregnir fram. Reglan er sú að allir sverja af sér ábyrgðina og vísar hver á annan. Á síðustu missirum hafa verið birtar ítarlegar skýrslur sem gefa glöggar upplýsingar um hvað veldur háu matvælaverði hér á landi. Gegnum tíðina hefur landfræðileg lega landsins, flutningskostnaður, smæð markaðarins og skortur á samkeppni á mörgum mörkuðum verið notað sem skýring á háu matvælaverði. Þessar skýringar duga þó ekki lengur einar og sér. Miklar breytingar í verslunarumhverfi síðustu ára hafa dregið úr áhrifum þessa. Bætt hagstjórn, minni verðbólguþrýstingur og aukin samskipti við útlönd hafa leitt til þess að kerfisbundinn munur á verðlagi hér og erlendis fer minnkandi og er hverfandi í mörgum vöruflokkum.

Þetta á við um alla vöruflokka nema matvöru. Ég endurtek, nema matvöru. Kannanir síðustu ára hafa ítrekað sýnt um 40–50% hærra verð á matvöru hér á landi miðað við nágrannalönd okkar. Skýrslur Hagfræðistofnunar, Samkeppniseftirlitsins og fleiri aðila segja okkur að það er mikil einföldun að taka einhvern einn þátt út sem meginorsök hás matvælaverðs. Þannig er rangt að skella skuldinni t.d. á innflutningsgjöld eða fákeppni eingöngu. Sannleikurinn er sá að enginn, hvorki bændur, kaupmenn, birgjar né stjórnvöld, er stikkfrí þegar leitað er skýringa og lausna.

En hvað veldur háu matvælaverði hér á landi? Er það tollavernd og aðrar innflutningshömlur á búvörum?

Þótt opinber stuðningur við landbúnað á Íslandi hafi farið minnkandi er hann enn með því hæsta sem gerist. Einkum er um tollavernd að ræða. Hagfræðistofnun telur að lækka megi matarreikning landsmanna um 5–10% ef innflutningshömlum á landbúnaðarvörum yrði aflétt. Því til áréttingar má benda á að niðurfelling tolla á ákveðnar tegundir grænmetis lækkaði verð þess til neytenda um 15% á árinu 2002.

Er fákeppni á matvörumarkaði um að kenna?

Það er óumdeilt að mikil samþjöppun hefur átt sér stað á matvörumarkaði á síðustu árum. Nú bera þrjár matvörukeðjur höfuð og herðar yfir aðra smásala og hafa samanlagt 89% af markaðnum sem er helmingi hærri hlutdeild en þrjár stærstu keðjurnar höfðu fyrir 10 árum. Við hljótum að velta fyrir okkur hvort samhengi sé milli aukinnar fákeppni á matvörumarkaði og meiri hækkunar matvælaverðs hér á landi á síðustu árum en annars staðar á Norðurlöndunum, eins og hefur komið fram í skýrslu Hagfræðistofnunar. Yfirlýsingar Samkeppniseftirlitsins í kjölfar samnorrænnar skýrslu, sem birt var í desember sl., um aukið eftirlit vegna fákeppni á matvörumarkaði gefur vonir. Hins vegar verða stjórnvöld að meta hverju sinni hvort þau ráða yfir nægum heimildum til að hafa hemil á fákeppni á þessum markaði.

Skýrir lega landsins og flutningskostnaður matvöruverð?

Hagfræðistofnun telur í skýrslu sinni að þessir þættir skýri ekki nema hluta verðmunar á Íslandi og annars staðar.

Eru skattar á matvöru hærri hér á landi en annars staðar?

Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar virðast vörugjöld og önnur skattlagning ekki skipta sköpum um mun á verðlagi hér á landi og í grannlöndum. Heildarskatttekjur sem hluti af landsframleiðslu eru lægri hér á landi en að meðaltali í Vestur-Evrópu. Hins vegar er virðisaukaskattur á matvæli nokkru hærri en í öðrum löndum. Óhjákvæmilegt er að líta til þess að lækkun virðisaukaskatts á ýmsar matvörur á 10. áratugnum leiddi til 5% lækkunar matvöruverðs í landinu. Hins vegar verður að benda á að haldbær hagfræðileg rök hafi verið færð fyrir því að lækkun virðisaukaskatts á matvæli muni ekki skila sér í samsvarandi lækkun matvöruverðs á Íslandi.

Virðulegi forseti. Það er ljóst af þeim gögnum um matvælamarkaðinn sem fyrir liggja að stjórnvaldsákvarðanir skipta verulegu máli varðandi lækkun matvælaverðs. Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því litið að samþjöppun á matvörumarkaði undir merkjum hagræðingar og magninnkaupa og styrking krónunnar hefur ekki skilað sér í lækkuðu matvælaverði til almennings. Því verður að leggja ríka áherslu á hlutverk samkeppnisyfirvalda og almennings til að skapa þeim aðhald sem starfa við matvöruframleiðslu, innflutning og smásölu.