132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Tæki stjórnvalda til að stuðla að lækkun matvælaverðs á Íslandi.

[15:41]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli en það var einmitt um miðjan desember sl. sem Samkeppniseftirlitið gaf út samnorræna skýrslu um þessi mál þar sem fram kom að verð á matvöru á Íslandi væri rúmlega 40% hærra en í löndum Evrópusambandsins. Síðan var sagt í upphafi þessarar skýrslu að innflutningshömlur á búvörum virtust vera helsta ástæðan. Þessi skýrsla hefur valdið verulegum umræðum hér á landi um ástæður fyrir háu matvælaverði og því sá ég ástæðu, af þessum ástæðum og mörgum öðrum, til að skipa sérstaka nefnd þar sem saman kæmu fulltrúar stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins, samtaka bænda og Samtaka atvinnulífsins til að fara yfir þessa þætti, fjalla um helstu orsakaþætti matvælaverðsins og gera tillögur um hvernig ráða megi bót á því.

Nú liggur fyrir heilmikið efni um þessi mál, eins og hv. þingmaður tók fram. Bæði liggur fyrir þessi samnorræna skýrsla og skýrsla frá Hagfræðistofnuninni um samanburð á matvælaverði á Íslandi, Norðurlöndunum og í Evrópusambandinu. Einnig liggur fyrir skýrsla Rannsóknarseturs verslunarinnar um skattlagningu vöru og þjónustu á Íslandi. Ég er sammála hv. þingmanni að hér er um flókið samspil að ræða en fyrir þessu háa matvælaverði eru margar ástæður. Ég tel hins vegar mikilvægt að þeir aðilar sem einkum hafa fjallað um þetta mál komi saman og fjalli um það í þeirri nefnd sem ég skipaði vegna þess að fram hafa komið ólík sjónarmið hjá þessum aðilum. Það er alveg ljóst að einn þáttur ræður þar miklu, þ.e. samkeppnisumhverfið. Það kemur fram hjá Samkeppniseftirlitinu að það hyggist leggja ríka áherslu á eftirlit með samkeppnisháttum á matvörumarkaði á næstunni, og er það vel. Það er líka ljóst að reglur um innflutning á landbúnaðarvörum, bæði tollar og innflutningshöft, skipta þarna allmiklu máli. Þar hefur orðið veruleg breyting á undanförnum árum, og meiri breytingar fyrirsjáanlegar í nánustu framtíð. Það er mikilvægt að vel takist til við þær breytingar, bæði vegna hagsmuna bænda og jafnframt vegna hagsmuna neytenda landsins.

Vörugjöld eru há hér á landi og það er enginn vafi á því að þau skekkja samkeppnisstöðu atvinnugreina hér á landi og þess vegna tel ég mjög mikilvægt að gera breytingar á vörugjöldum. Hvernig það skilar sér síðan í lægra matvöruverði vil ég ekki fullyrða um á þessu stigi en það er eitt af því sem þessi nefnd þarf að fara yfir.

Loks er að nefna aðra skattlagningu ríkisvaldsins, þá fyrst og fremst virðisaukaskattinn. Það má ætla að lækkun á virðisaukaskatti skili sér í lægra matvöruverði en hins vegar óttast margir að vegna þeirrar þenslu sem er almennt í þjóðfélaginu og mikillar eftirspurnar þar muni sú lækkun ekki skila sér í þeim mæli sem menn gætu annars reiknað með, þ.e. að lækkunin skili sér ekki öll til neytenda, heldur fari hún jafnframt til þeirra sem versla með vöruna.

Allt eru þetta þættir sem skipta miklu máli. Sú nefnd sem ég nefndi hefur þegar tekið til starfa. Hún var skipuð í upphafi árs og hélt sinn fyrsta fund 13. janúar, annan hinn 9. febrúar og mun síðan halda sinn næsta fund 16. febrúar. Ég vænti góðs af þessu nefndarstarfi og vonast eftir að nefndin skili tillögum um það hvernig hægt sé að standa að því að lækka matvælaverð þannig að það verði síðan tillögur sem ríkisstjórn og Alþingi geti tekið afstöðu til.