132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Heyrnar-, tal- og sjónstöð.

514. mál
[16:24]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til laga um Heyrnar-, tal- og sjónstöð. Samkvæmt frumvarpinu er með því lagt til grundvallar að bæta rekstrarskilyrði tveggja stofnana, þ.e. Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar og Sjónstöðvarinnar. Eins er talið markmið frumvarpsins að bæta þjónustu stofnananna með því að koma þeim undir sama þak og ná hagræðingu með einum forstjóra og einni stjórn.

Hæstv. forseti. Nú eru þetta mjög ólíkar fatlanir, heyrnar-, tal- og sjónskerðing. Gripið er til ólíkra úrræða í hverjum fötlunarflokki fyrir sig. Það er því ekki sjálfgefið að öll sú starfsemi eigi frekar heima undir sama þaki. Mér finnst mikilvægt að fara vel yfir hvað félög eða fulltrúar fólks með þær fatlanir hafa um málið að segja.

Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að í vinnuferlinu hafi verið haft samband við Félag heyrnarlausra, Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra, Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, Félagið Heyrnarhjálp, Daufblindrafélag Íslands og Landssamband eldri borgara. En eldri borgarar eru, eins og fram kom í máli hæstv. heilbrigðisráðherra, sá hópur sem mest nýtir sér bæði Sjónstöðina og Heyrnar- og talmeinastöðina. Fyrir þann hóp og eins daufblinda má ætla að hagræðing sé af því að hafa þjónustuna í sama húsi.

En eins og komið hefur fram gaf Blindrafélagið ekki eins jákvæða umsögn og maður skyldi ætla, af athugasemdum við frumvarpið. Fram kemur að þeir sem nota þjónustu Sjónstöðvarinnar séu ánægðir með starfsemina eins og hún er í dag. Ég tel mikilvægt, hæstv. forseti, að fara vel yfir umsagnir þessara félaga og taka fullt tillit til sjónarmiða þeirra. Það er ekkert sjálfgefið að þótt sameinað sé til að ná hagræðingu í rekstri þá verði starfsemin í sjálfu sér betri.

Í frumvarpinu kemur fram að í dag séu þetta tvær litlar einingar, að reksturinn hafi verið erfiður og sérstaklega hjá Sjónstöðinni. Þá má spyrja sig: Hefur Sjónstöðin yfirleitt fengið nægilegt fjármagn til rekstrarins? Er það ekki meinið, frekar en að endilega þurfi að horfa til þess að sameina þessa starfsemi? Hefur rekstrarfé til stöðvarinnar eins og hún hefur verið rekin ekki verið vanáætlað?

Ég vil endurtaka fyrirspurn mína til hæstv. ráðherra. Ég vona að henni verði a.m.k. svarað í heilbrigðis- og trygginganefnd við afgreiðslu málsins: Er með þessum breytingum fyrirhuguð meiri og skipulagðari þjónusta um allt land? Er hugmyndin sú að ráða talmeinafræðinga, t.d. við heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni þar sem það er mögulegt, á sama hátt og þangað hafa verið ráðnir sjúkraþjálfar? Mér finnst þurfa að skoða fleiri þætti til bættrar þjónustu í tengslum við þetta frumvarp.

Það er rétt að skoða frumvarpið með jákvæðu hugarfari og hvernig þjónustunni er háttað í nágrannalöndum okkar, sérstaklega á Norðurlöndunum. Það er vert að skoða hvort telja megi að fagleg þjónusta verði betri við breytinguna. Maður sér fyrir sér að hægt verði að spara í rekstrinum en varðandi faglega þjónustu þá liggur það ekki í augum uppi.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri að sinni. Við komum til með að vinna með þetta mál í heilbrigðis- og trygginganefnd, skoða það vel og fá a.m.k. umsagnir þeirra sem málið varðar.