132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög.

53. mál
[17:31]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða alvarlegt mál og ég held að flutningsmenn eigi þakkir skildar fyrir að vekja athygli á þessu og flytja þetta mál. Vonandi gefst tími til að skoða málið og fara vel yfir það í þeirri nefnd sem því er vísað til. En ég verð að segja alveg eins og er, eftir að hafa hlusta á ræðu hv. þm. Valdimars L. Friðrikssonar, að mér er hreinlega orða vant.

Nú er það svo að við erum ósammála um margt í þessum sal. Þannig er það í stjórnmálum. Ég hef borið aðila sökum þegar mér hefur sýnst svo og gagnrýnt stjórnarandstæðinga og sömuleiðis hef ég gagnrýnt þá aðila sem ég hef unnið með annars staðar, þar sem þeir hafa verið í meiri hluta. En það hefur aldrei hvarflað að mér, virðulegi forseti, og ég efast um að það hvarfli almennt að þingmönnum eða fólki, sama hver það er, hvort það er stjórnarliði eða aðrir, að segja að þeim sé sama um heimilisofbeldi. Sérstaklega þegar um er að ræða ofbeldi á konum.

Nú er alveg sjálfsagt að vekja athygli á góðum málstað og sjálfsagt að berjast fyrir málstað sínum og gagnrýna það sem miður fer en það verða einhvers staðar að vera takmörk. Það að bera menn svona sökum er nokkuð sem gengur allt of langt og ég vonast til að viðkomandi þingmaður útskýri það fyrir okkur í andsvari að hann hafi mismælt sig því ég trúi ekki að hann standi á þeirri skoðun og ætli að hér sé meiri hluti þingmanna sem sé nákvæmlega sama (Forseti hringir.) um ofbeldi hvort sem það tengist konum eða öðrum.