132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög.

53. mál
[17:34]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála og almennum hegningarlögum, þ.e. brottvísun og heimsóknarbann. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir lýsti því ágætlega í inngangi um hvað málið snýst og gat þess reyndar að þetta væri í þriðja skiptið sem málið er lagt fyrir og vonandi að það fái nú skjóta afgreiðslu í allsherjarnefnd. Ég sé reyndar enga ástæðu til annars vegna þess að þær umsagnir sem sendar voru frá hinum ýmsu félögum, stéttarfélögum og samtökum voru almennt mjög jákvæðar og fögnuðu þessu frumvarpi. Hv. þm. Valdimar L. Friðriksson tók undir þetta og ég fagna því og fagna því reyndar einnig að hv. þm. Guðlaugur Þór Þorvaldsson tók undir frumvarpið.

Hér er tekið á mjög alvarlegu máli. Í Austurríki hafa verið sett lög sem hafa reynst mjög vel. Þetta frumvarp tekur mið af norskum og sænskum lögum sem sett voru fyrir þremur árum, árið 2003. Reynslan af þeim hefur verið mjög jákvæð. Í greinargerð segir að heimilt sé að „fjarlægja ofbeldismann af heimili sínu ógni hann öryggi sambýlisfólks síns og er þeirri brottvísun fylgt eftir með nálgunarbanni í tiltekinn tíma. Ofbeldismaðurinn fær upplýsingar um mögulega gististaði utan heimilisins og hjálp til þess að vinna bug á ofbeldishneigð sinni með viðeigandi meðferðarúrræðum og fórnarlömb ofbeldisins fá einnig mikla aðstoð. Þetta mikla stuðningsnet í Austurríki er talið grundvallarforsenda þess hve vel úrræðið hefur gefist þar.“ Ég tek heils hugar undir þetta og vona að það verði til þess að menn líti þetta mjög jákvæðum augum og horfi til þess hversu vel þetta hefur gefist í þeim löndum sem hér eru nefnd og málið fái skjótan framgang.

Hér er verið að taka á málum á annan hátt en venjulega er gert. Við vitum að það eru konur og börn í flestum tilfellum sem þurfa að leita skjóls hjá Kvennaathvarfi. Ofbeldismaðurinn sjálfur getur hins vegar setið heima eins og ekkert hafi í skorist og verið húsbóndi á sínu heimili áfram og beðið eftir því í flestum tilfellum að konan og börnin komi aftur heim. Hér er hins vegar tekið akkúrat öfugt á málunum og ofbeldismaðurinn er fjarlægður af lögreglunni og honum gefinn kostur á að bæta ráð sitt. Fara í sérstaka meðferð til að vinna bug á ofbeldishneigð sinni. Það er ánægjulegt að fá þær tölur frá Austurríki sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi að aðeins 10% ofbeldismanna þurfa að fá aftur nálgunarbann á sig. Við þekkjum það hins vegar frá Kvennaathvarfinu að í mjög mörgum tilfellum þurfa konur ítrekað að fara aftur af heimili, yfirgefa heimili, vegna síendurtekins ofbeldis. Hv. þm. Valdimar L. Friðriksson kom einmitt inn á að hversu mikil skref þetta eru og alvarleg sem konurnar þurfa að taka. Þær taka á sig þá ákvörðun að spilla heimilisfriðnum, ef hægt er að tala um frið, en í þessu tilfelli er það hins vegar lögreglan sem tekur ákvörðun. Fjarlægir ofbeldismanninn og gerir hann þar með óvirkan.

Verði þetta frumvarp að lögum er líklegt að upp komist um fleiri heimilisofbeldismál. Við vitum að í heimilisofbeldi erum við bara að sjá toppinn á ísjakanum, því miður. Aukin umræða á síðustu árum hefur hins vegar orðið til þess að fleiri og fleiri mál hafa komið upp og sú umræða hefur verið jákvæð, losað um málið, vegna þess að fyrir nokkrum árum, áratug eða svo, var þetta algjört tabú. Þessi mál voru bara í þagnargildi og tölur frá Kvennaathvarfinu sýna það.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, hefur lýst því yfir í skýrslum sínum að ofbeldi gegn konum séu eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamál heimsins, hvorki meira né minna. Þar er nefnt að fleiri konur missi heilsuna af völdum ofbeldis sem rekja má til kynferðis þeirra, en af völdum malaríu, umferðarslysa og hernaðarátaka samanlagt. Það er nú ekkert smávegis. Við skulum líka líta á að heimilisofbeldi felst ekki alltaf í barsmíðum. Það er oft andlegt ofbeldi sem er enn þá alvarlegra og sárara en hið sjáanlega ofbeldi.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi heimsókn Rosu Logar fyrir ári síðan, eða síðasta sumar. En hún kom líka árið 2001 á ráðstefnu sem var haldin í Reykjavík sem hét: Hinir óbifanlegu – ofbeldismenn. Þetta var ráðstefna á vegum samtaka norrænna kvenna gegn ofbeldi. Hún sagði einmitt frá reynslunni af þessum lögum og því að Austurríkismenn fóru að hugsa sinn gang þegar kvennaathvörf í landinu voru orðin samtals 20. Umræðan í landinu var þá þannig að þau væru frekar of fá en hitt. En Rosa Logar segir að lögin í Austurríki hafi orðið til fyrir kraftaverk og hún hælir austurrísku lögreglunni fyrir hversu ötul hún hefur verið að fræða og þjálfa lögregluþjóna sem þurfi að taka á heimilisofbeldi. Maður hefur heyrt sögur frá lögreglumönnum að átakanlegustu störf þeirra eru einmitt þegar þeir koma að heimilisofbeldi. Oft eru þeir þá að skynja að ofbeldi hafi átt sér stað í langan tíma. Við sjáum öll fyrir okkur umferðarslys og annað þess háttar sem hlýtur að taka á lögreglumenn. En þeir segja að þetta sé hins vegar enn þá alvarlegra vegna þess að oft stendur lögreglan og getur í raun og veru lítið gert. En með þessum ákvæðum getur lögreglan tekið af skarið og fjarlægt ofbeldismanninn.

Að sögn Rosu Logar var austurríska lögreglan óvæntur bandamaður í þessari baráttu. Hún viðurkenndi vanmátt sinn gagnvart ofbeldismönnum og þótti skjóta skökku við að þurfa að skipa fórnarlömbum alltaf að yfirgefa heimilið í lögreglufylgd meðan ofbeldismaðurinn sat eftir og gat hreiðrað um sig í sófanum og horft á sjónvarpið. En með þessu lagafrumvarpi er gert ráð fyrir að lögreglan taki húslykilinn af ofbeldismanninum og komi honum í hendur dómara. Reynsla Austurríkismanna er sú að 90% ofbeldismanna samþykkja mótþróalaust af vera fjarlægðir af heimilinu og dæmi eru um að þeir jafnvel þakki lögreglumönnum fyrir að grípa inn í og fyrir að vera fjarlægðir. Eins og ég kom inn á áðan er auðvitað mjög mikilvægt að þessir menn fái líka aðstoð til að vinna bug á ofbeldishneigð sinni.

Ástandið á Íslandi er þannig samkvæmt upplýsingum úr ársskýrslu Kvennaathvarfsins frá 2002 að komur þangað voru 435 og á bak við þá tölu eru 250 konur. 55 þessara kvenna voru með líkamlega áverka við komuna. Í skýrslunni kemur einnig fram að um 93% kvennanna voru fæddar á Íslandi og 91% gerendanna einnig fæddir á Íslandi, sem sagt í yfirgnæfandi meiri hluta. Yngstu konurnar sem leituðu til athvarfsins voru 16 ára og sú elsta var 71 árs. Við sjáum að þetta á við um alla aldurshópa. Eins og komið var inn á áðan var í flestum tilfellum um eiginmenn eða fyrrverandi eiginmenn eða sambýlismenn að ræða. Árið 2002 dvaldi 41 barn í Kvennaathvarfinu. Það yngsta var fimm mánaða og það elsta 19 ára. 39 þessara barna höfðu verið beitt ofbeldi samkvæmt skráningu athvarfsins. Í langflestum tilfella var ofbeldismaðurinn faðir barnanna eða í 76% tilfella.

Í ársskýrslunni fyrir 2004 blasir við umtalsverð fjölgun. Þar segir, með leyfi forseta:

„Aldrei hafa fleiri konur sótt í Kvennaathvarfið en árið 2004 ef talin eru bæði viðtöl og fjöldi dvalarkvenna. Alls voru skráðar komur í athvarfið 531 en á bak við þessa tölu eru 254 konur. Sumar koma oftar en einu sinni í viðtal og jafnvel dvöl, en meðaltal viðtala á hverja konu eru 2,2.“

Eins og komið hefur fram í umræðunni er þetta ekki flokkspólitískt mál þó að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs beri þetta fram og ætti víðtækur stuðningur við málið að nást hér á þingi. Ég vona innilega að það eigi skjóta leið í þriðja skipti í gegnum allsherjarnefnd svo við getum tekið það fyrir á þessu þingi til 2. umr. og að frumvarpið geti orðið að lögum í vor.