132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög.

53. mál
[17:47]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka þá umræðu sem hefur orðið um málið og þær undirtektir sem það hefur fengið hér. Ég veit að allir þingmenn bera hag borgaranna fyrir brjósti og við erum öll á svipaðri vegferð í þessum efnum. Við viljum útrýma heimilisofbeldi. Við sem erum hér í þessum sal verðum að gera okkur grein fyrir því að við höfum tæki í höndunum, nýja lagasetningu, sem getur virkað mun betur en þau lög sem við höfum í dag. Þetta frumvarp mælir fyrir um að slíkt tæki verði innleitt.

Nálgunarbannið, eins og við höfum það í lögum í dag, er mjög veikt tæki, veikt úrræði, og virkar ekki sem slíkt vegna þess að þar er það fórnarlambið sjálft sem þarf að beita úrræðinu. Það vita það allir sem vita vilja að fórnarlamb ofbeldis er skiljanlega hrætt við að gera nokkuð það sem gæti reitt ofbeldismanninn til reiði, vegna þess að það er hrætt um að það bitni þá aftur á því sjálfu. Það að fórnarlamb ofbeldis hafi úrræðið í höndum sínum er nánast marklaust og við sjáum það alveg. Það er komin nóg reynsla á nálgunarbannið hér á Íslandi til þess að við vitum að það þarf öðruvísi úrræði. Þetta er öðruvísi úrræði. Þetta er úrræði sem lögregla ásamt með dómurum hefur í sinni hendi og tryggir í sjálfu sér að konur og börn hætta að verða flóttamenn í eigin landi, tryggir að það verði ekki konurnar og börnin sem tekin eru út af heimilunum og sett í kvennaathvarf heldur verði það ofbeldismaðurinn sem verður tekinn út. Honum er síðan veitt aðstoð og liðsinni við þann vanda sem hann á við að stríða því að vandi heimilisofbeldisins á auðvitað rætur að rekja til vanda ofbeldismannsins. Samfélagsleg skylda okkar hlýtur að vera fólgin í því að rétta honum hjálparhönd til þess að leiða hann út úr ofbeldinu alveg á sama hátt og við reynum að leiða fórnarlömbin út úr ofbeldinu.

Það er því stórt og mikið verkefni sem við eigum fyrir höndum, herra forseti, og ég treysti því að þingmenn láti nú í ljósi vilja sinn og standi við þær yfirlýsingar sem hér hafa verið gefnar um að tekið verði á og við bætum þau úrræði sem við höfum í höndunum. Hingað til höfum við Íslendingar verið að fá athugasemdir frá erlendum skoðunarnefndum eins og mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna frá því í apríl 2005. Við fengum athugasemd frá mannréttindanefndinni um að hér væri ákært í of fáum nauðgunarmálum miðað við fjölda kærðra mála. Í athugasemdunum var sagt að stjórnvöldum bæri að tryggja að alvarleiki nauðgunarbrota væri viðurkenndur með því að láta reyna á fleiri ákærur fyrir dómi. Við höfum líka fengið ábendingar um að heimilisofbeldismál séu ekki meðhöndluð á þann hátt sem ætti að gera fyrir íslenska dómskerfinu. Við skulum taka þessar ábendingar allar alvarlega og taka undir með þeim sem barist hafa fyrir því að úrbætur verði gerðar í þessum málum. Kvennasamtökin sem hafa staðið fyrir 16 daga átakinu oftar en einu sinni, núna í tvígang, hafa gefið tóninn. Þau komu með ábendingar til ríkisstjórnarinnar um aðgerðaáætlun og ríkisstjórnin hefur orðið við þeirri áskorun og er að gera aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi.

Hæstv. dómsmálaráðherra sagði á ráðstefnu sem norrænar konur héldu hér í Reykjavík 2. september 2005 — ráðstefnan fjallaði um ofbeldismennina sérstaklega og spurningin sem varpað var fram í titli ráðstefnunnar var sú hvort Norðurlönd væru griðland fyrir ofbeldismenn.

Hæstv. ráðherra sagði á ráðstefnunni, með leyfi forseta:

„Ég vil ekki að Ísland sé skjól fyrir ofbeldismenn, hvorki á þessu sviði né öðrum, og ef þörf er á sérstökum aðgerðum til að uppræta kynbundið ofbeldi er ekki um annað að ræða en að grípa til þeirra og tryggja þessar lögheimildir.“

Hæstv. forseti. Undir þessi orð vil ég taka og ég vil segja við hæstv. ráðherra og hv. þingmenn hér í þessum sal, jafnt stjórnarliða sem aðra: Förum nú með gunnfánann hátt, berum hann hátt. Notum þau tæki sem við höfum. Ef við þurfum að tryggja lögheimildir, sem er búið að leiða í ljós, þá skulum við gera það. Ein lögheimildin er fólgin í því frumvarpi sem hér hefur verið rætt um.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar til umfjöllunar.