132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar.

56. mál
[17:52]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Hingað er ég mætt öðru sinni í dag með mál af allt öðrum toga. Nú ætla ég að mæla fyrir þingsályktunartillögu, sem ég hef reyndar mælt fyrir áður líka, um stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar. Þessi tillaga er flutt af þingmönnum sem eiga sæti í umhverfisnefnd — ég verð að biðja starfsmenn þingsins að hjálpa mér, ég sé að ég er með þingskjalið frá því í fyrra, og rétta mér tillöguna eins og hún er á gildandi þingskjali, sem er nr. 56. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn umhverfisnefndar Alþingis: Dagný Jónsdóttir, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Sigurjón Þórðarson. Það er sem sagt einn úr hverjum flokki þannig að ég hefði haldið að hér værum við með mál í höndunum sem gulltryggt væri að kæmist í gegn á þessu þingi. Ég ætla að hefja mál mitt á því að segja að ég óska svo sannarlega að þær vonir mínar rætist.

Hér er um að ræða tillögu þar sem gert er ráð fyrir því að ríkisstjórninni verði falið að skipa nefnd með fulltrúum samgönguráðuneytis, umhverfisráðuneytis, Vegagerðarinnar, Umferðarstofu, Samtaka sveitarfélaga og samtaka hjólreiðafólks. Hlutverk nefndarinnar yrði að undirbúa áætlun og lagabreytingar sem geri ráð fyrir hjólreiðum sem viðurkenndum og fullgildum kosti í samgöngumálum. Hjólreiðabrautir verði samkvæmt tillögunni sérstaklega skilgreindar og þeim fundinn staður í vegalögum auk þess sem kveðið verði á um ábyrgð eða þátttöku ríkisvaldsins í gerð þeirra. Þannig verði komið upp sérstöku stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar sem ríkisvaldið sjái um eða taki þátt í að kosta í samstarfi við sveitarfélögin. Hjólreiðabrautakerfið skuli tengja saman þéttbýlisstaði og hjólreiðastíga einstakra sveitarfélaga við þjóðvegakerfið. Einnig skuli gert ráð fyrir stofnbrautum gegnum þéttbýlisstaði með svipuðu fyrirkomulagi og gildir um þjóðvegi í þéttbýli.

Síðan er hér lokamálsgrein tillögunnar um að samgönguráðherra leggi fyrir Alþingi frumvarp í samræmi við niðurstöður nefndarinnar eigi síðar en ári eftir samþykkt tillögunnar.

Ef við gerum ráð fyrir því að tillagan verði samþykkt hér í vor þá held ég að hjólreiðamenn geti farið að hlakka til að frumvarp á grundvelli hennar verði þá mögulega lagt fram vorið 2007.

Eins og fram kom í máli mínu áðan hef ég lagt þessa tillögu fram áður með öðrum þingmönnum. Nokkur fjöldi þingmanna hefur nú þegar komið að því að flytja þetta mál með mér. Við höfum líka sent það út til umsagnar. Það voru einir ellefu aðilar sem sendu okkur umsagnir á sínum tíma um tillöguna. Það var Árvekni, átaksverkefni um slysavarnir barna og unglinga, það var Eyþing, Hjólreiðafélag Reykjavíkur, Íslenski fjallahjólaklúbburinn, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Landssamtök hjólreiðamanna, Landvernd, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Umferðarráð og Umferðarstofa. Allir hafa þessir aðilar sent inn umsagnir og þær voru vægast sagt, herra forseti, afar jákvæðar. Lýst var öflugum stuðningi við efni tillögunnar, auk þess sem fróðlegar upplýsingar komu fram í umsögnunum, t.d. í umsögn Landssamtaka hjólreiðamanna og Íslenska fjallahjólaklúbbsins, en þessi samtök hafa verið iðin við að skrifa um málefnið. Tillagan hefur fengið stuðning í blaðagreinum. Fjallað hefur verið um hana í Hjólhestinum, fréttabréfi Íslenska fjallahjólaklúbbsins, og við höfum mátt lesa fróðleik frá Landssamtökum hjólreiðamanna t.d. í athugasemdum sem okkur hafa borist hér á Alþingi við umferðaröryggisáætlunina sem við samþykktum og á að gilda frá 2002–2012.

Mér finnst mikilvægt að það komi fram hér, eins og sagt er í greinargerð, að þessi tillaga styðst við hugmyndafræði um sjálfbærar samgöngur en slík hugmyndafræði byggist á því að samgöngur taki mið af markmiðum um sjálfbæra þróun, og að við alla áætlunargerð sé megináhersla lögð á að leita leiða til að halda neikvæðum þáttum samgangna í lágmarki.

Nú vitum við sem búum hér í borginni að þeir gerast æ fleiri dagarnir á hverju ári þar sem svifryksmengun er yfir leyfilegum mörkum, þ.e. yfir mörkum sem heilsufar einstaklinga er talið þola. Það er því algjörlega ljóst að við verðum að grípa til einhverra aðgerða. Ef okkur tekst að fjölga hjólandi vegfarendum í umferðinni verður það til þess að draga úr svifryksmenguninni og þar með að auka loftgæði allra borgarbúa. Við erum jú sú höfuðborg á norðurhveli jarðar sem státar sig af hreinu lofti, en það er þannig að loftgæðin hér í Reykjavíkurborg eru í vetrarstillum yfir hættumörkum. Þessu verðum við að breyta og það er sameiginleg ábyrgð okkar að það verði gert. Ég tel best að gera það með því að opna leiðir fyrir hjólreiðafólk svo hægt sé að nota hjólið sem samgöngutæki en ekki einvörðungu sem útivistartæki eins og nú er. Við vitum öll að Reykjavíkurborg og reyndar sveitarfélögin hér í nágrenninu hafa verið að leggja útivistarstíga sem ekki eru endilega til þess fallnir að hjólreiðafólk geti valið sér stystu mögulegu leið á milli staða a og b. Hjólreiðastígarnir liggja jafngjarnan í úthverfum eða útjaðri sveitarfélaganna en eru ekki samhliða umferðaræðum t.d. Ef við eigum að gera hjólreiðafólki það kleift að nýta samgöngutækið sem það kýs sér á eins skilvirkan hátt og mögulegt er verðum við að heimila fólki að fara stystu leiðir á milli staða.

Hjólreiðafólk á höfuðborgarsvæðinu hefur einnig átt við þann vanda að glíma að þéttbýlisstaðirnir hér á svæðinu eru ekki tengdir með hjólastígum. Það er á ábyrgð ríkisvaldsins að stofnbrautir séu lagðar í gegnum þéttbýlisstaði og við höfum skilgreindar stofnbrautir í þéttbýli hér á höfuðborgarsvæðinu en þess hefur ekki verið gætt að hjólreiðastígar eða hjólreiðabrautir fylgdu þeim stofnbrautum. Ef stjórnvöld meina eitthvað með þeim yfirlýsingum sem fram koma í gildandi samgönguáætlun um það að auka beri hlut sjálfbærra samgangna í kerfinu sem heild verðum við að gera hér bragarbót, það er alveg ljóst. Sú bragarbót felst í því að búa til stofnbrautakerfi sem gerir líka ráð fyrir hjólinu.

Eins og lesa má í þessari greinargerð, forseti, og ég hef svo sem vikið að hér í ræðum oftar en einu sinni áður, er ljóst að við Íslendingar erum eftirbátar nágrannaþjóða okkar í þessum efnum. Norðurlandaþjóðirnar hafa staðið sig mjög vel í því að gera hjólið að gildandi samgöngutæki í umferðinni. Þær hafa skapað samfelld grunnkerfi fyrir hjólreiðarnar sínar. Þetta er til fyrirmyndar og þarna eru módel sem er auðvelt að horfa til og líta á með tilliti til eftirbreytni.

Þess má geta að samgönguráðherrar í Evrópusambandsríkjunum hafa samþykkt áætlun sem miðar að því að tekið verði tillit til sjónarmiða umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar í stefnu í samgöngumálum almennt. Einnig má geta þess að almenningssamgöngurnar — sem við höfum svo sem ekki getað innleitt hér í þeim mæli sem ég hefði óskað, og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum gjarnan talað fyrir — eru einn hluti í þessu samgöngukerfi sem við þurfum líka að taka til alvarlegrar skoðunar. Auðvitað þarf að leggja áherslu á fjölþættar og samsettar samgöngur í borgum. Okkur ber skylda til samkvæmt alþjóðlegum samningum að tryggja að samgönguhættir okkar mengi minna en þeir hafa gert hingað til þannig að hér er kjörið tækifæri. Setjum hjólreiðastígana í vegalögin, gerum hjólreiðarnar að alvöru valkosti og tryggjum loftgæði þeirra borgarbúa sem um göturnar fara á þann hátt að við aukum vægi hjólsins í umferðinni.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa lengra mál um þessa tillögu hér og nú. Ég ítreka að ég hef fengið afar jákvæð viðbrögð við henni og við flutningsmenn hennar, m.a. á umhverfisþingi hæstv. umhverfisráðherra sem haldið var fyrir ekki margt löngu hér í Reykjavík. Ég treysti því að nú sé jarðvegurinn frjór og lítið annað að gera en að samþykkja þetta. Ég treysti því að unnin verði áætlun um það hvernig við komum hjólreiðastígunum okkar inn í vegalög svo að tryggja megi að ábyrgðin af því að slíkar hjólreiðabrautir verði lagðar sé á herðum ríkisvaldsins, og síðan geta sveitarfélögin með öflugum hætti prjónað sína stíga saman við það kerfi sem þannig yrði til.