132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar.

56. mál
[18:08]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum sem hér hafa talað, hv. þingmönnum, Kolbrúnu Halldórsdóttur og Hlyni Hallssyni, sem hafa flutt ágætisræður. Ég vonast samt til að sá ágæti þingmaður, Hlynur Hallsson, fari að muna hvað ég heiti þegar fram líða stundir en hann hefur tilhneigingu til að fara rangt með föðurnafn mitt. Ég í það minnsta hafði ekki hugmynd um að ég væri Þorvaldsson fyrr en hv. þingmaður upplýsti það áðan. Ég býst fastlega við því að hann hafi þá eitthvað ruglast á mér og ágætismanni sem var áberandi í þjóðlífinu fyrir nokkrum áratugum. Sem er nú synd, vegna þess að ég var í menntaskóla með hv. þm. Hlyni Hallssyni og mér finnst að hann eigi að muna nafnið mitt. En það kemur örugglega þegar fram líða stundir.

En hvað sem því líður, það er ekki efni máls heldur er ánægjulegt að sjá þessa þingsályktunartillögu þar sem 1. flutningsmaður er hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir en meðflutningsmenn eru hv. þingmenn Dagný Jónsdóttir, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Sigurjón Þórðarson. Ég held ég fari alveg rétt með að þetta eru þingmenn úr öllum flokkum sem eru á Alþingi. Enda er málið þess eðlis að góð sátt ætti að vera um að reyna að efla hjólreiðar í landinu og sem betur fer hefur það þróast í rétta átt. Það er að vísu mjög langt síðan menn lögðu hjólreiðastíga hér í Reykjavík og ég held ég fari rétt með að það sé fyrsta sveitarfélagið sem lagði hjólreiðastíga. Það var í borgarstjóratíð Davíðs Oddssonar. Ég held að pólitísk samstaða hafi verið um það þá. Síðan hefur verið unnið myndarlega að því að leggja hjólreiðastíga og göngustíga víðs vegar um borgina. Það eru ekki rosalega mörg ár síðan, rúmlega tíu ár, eitthvað slíkt, að ríkið fór að setja brýr. Það var held ég þáverandi samgönguráðherra, Halldór Blöndal, sem var í forsvari fyrir því að fyrstu brýrnar yfir umferðaræðar voru settar í Reykjavíkurborg. Það gerir að verkum að hægt er að hjóla á milli flestra svæða innan borgarinnar. En það er alveg hárrétt sem kom fram hjá öðrum hvorum alþingismanninum sem hér talaði á undan, ég held að það hafi verið hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, að ekki er alltaf um stystu leiðir á milli staða að ræða. Það er auðvitað mjög óhentugt vegna þess að það eru miklir möguleikar að vera með mjög stuttar reiðhjólaleiðir innan borgarinnar, ef vilji er fyrir hendi. Það hefur vantað upp á að menn klári þetta verkefni og gangi þannig frá að við séum með hjólreiðastíga sem gera það að verkum að hægt sé að koma úr íbúðahverfunum til helstu vinnustaða, eins og hérna í miðborginni, á sem stystum tíma. En svo sannarlega er mjög mikið af glæsilegum göngu- og hjólreiðastígum. Og þeir eru það mikið notaðir sumir að ég held að það veitti jafnvel ekkert af því að tvöfalda þá. Því þegar fólk er með barnavagna, á hjólum, gangandi og annað slíkt, þá eru þeir fljótir að fyllast.

Einn borgarfulltrúi sjálfstæðismanna, Jórunn Frímannsdóttir, hefur flutt fyrir okkur sjálfstæðismenn í borgarstjórn tillögu í umhverfisráði borgarinnar, sem ég held að því miður að hafi ekki verið fylgt eftir, að þetta verði samræmt á milli sveitarfélaga, þ.e. göngustígarnir. Því önnur sveitarfélög hafa gengið á eftir og eru svo sannarlega komin með nokkuð góða hjóla- og göngustíga. En það vantar upp á að þarna sé samræmt á milli og ég held að þetta verkefni á höfuðborgarsvæðinu sé tiltölulega einfalt.

En við eigum að sjálfsögðu að setja markið hærra. Því eins og kom fram hjá hv. þm. Hlyni Hallssyni sem vísaði í reynslu sína frá öðrum löndum, frá Þýskalandi held ég að það hafi verið, að þrátt fyrir að við búum við öðruvísi veðurfar en aðrar þjóðir er þetta svo sannarlega valkostur fyrir mjög marga. Það er æskilegt þegar við erum með ógnir, sérstaklega vegna hreyfingarleysis og þess háttar, að við sköpum aðstöðu fyrir fólk að geta notað reiðhjólið. Það er til fólk sem notar reiðhjól til og frá vinnu. Sem betur fer er þróun í jákvæða átt hvað það varðar. En það sem vantar upp á er að okkur vantar aðstöðu á mörgum vinnustöðum þar sem fólk getur skipt um föt og farið í sturtu og annað slíkt. Því það er auðvitað forsenda ef fólk ætlar að hjóla í vinnuna. Við sjáum það bara með þennan vinnustað hér að þó að við búum svo vel að hafa slíka aðstöðu, þá held ég ekki að mörg okkar notfæri sér það, því miður. En sé nú strax á svipbrigðum hér í salnum að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir er ein af þeim sem eru til fyrirmyndar í þessum málum og hefur nýtt sér aðstöðuna og er það vel. Og megum við hin taka það upp eftir hv. þingmanni.

Það er meira að segja svo, og ég hef séð það, að vagnar eru dregnir á eftir hjólinu, ég hef að vísu ekki notað það beint sjálfur. Ég hef hjólað mikið með fjölskyldunni, þ.e. með yngri börnin aftan á sértilgerðum stólum. En það er líka til og fer í vöxt að vagnar eru dregnir á eftir hjólinu, sem ég hef ekki prófað sjálfur. En það sem ég er að reyna að segja eða leggja áherslu á er að þetta er til líka þrátt fyrir að maður beri fyrir sig að einungis sé hægt að fara á milli staða með fjölskylduna í bílum, þá er það ekki svo. Það er margt fólk sem notfærir sér þetta, alveg sama á hvaða aldri börnin eru. Þau geta að sjálfsögðu hjólað sjálf ef þau eru komin á ákveðinn aldur en ef þau eru yngri eru til alls konar aðferðir til að þau geti farið um með mjög öruggum hætti.

Aðalatriðið í mínum huga er að við notum allar leiðir til að sjá til þess að þetta verði raunhæfir valkostir. Einn er sá að hjóla innan höfuðborgarsvæðisins, en vonandi í nánustu framtíð og það er kannski kominn vísir að því, getum við hjólað á milli annarra staða líka. Því það er alveg frábær leið til að fara um landið á reiðhjóli. Það er algjörlega frábær leið. En það getur verið hættulegt að fara hér eftir þjóðvegakerfinu. Auðvitað er það hægt og eru það helst útlendingar sem gera það. En það hlýtur að vera mjög hættulegt og ekki kannski besta leiðin til þess ef menn ætla að fara á reiðhjólum á annað borð.

Það hefur oft verið sagt að skemmtilegasta leiðin til að ferðast um landið sé á hesti, og ég get tekið undir það. Það er mjög skemmtilegt. En svo sannarlega eiga reiðhjól líka að vera valkostur hvað þetta varðar. Þó svo að við séum ekki að fara að stíga þau skref að gera hjólreiðabraut með hringveginum þá eigum við að vinna jafnt og þétt að því. Þess vegna líst mér vel á þessa tillögu til þingsályktunar og vona að hún fái skjóta og góða afgreiðslu og við fáum góða niðurstöðu þar. Ég sagði það á umhverfisþinginu og stend enn þá við það, ég held að það sé markmið í sjálfu sér að við sköpum þjóðfélag þar sem hjólreiðar, eins og önnur útivist, sé raunverulegur valkostur. Því fleiri sem nýta sér reiðhjólið þeim mun betra og ég óska hv. flutningsmönnum til hamingju með þessa ágætu þingsályktunartillögu.