132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Djúpborun á Íslandi.

61. mál
[18:43]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki á móti stóriðju af trúarlegum ástæðum. Skilningur minn á hugtakinu trúarlegur er annars eðlis en skilningur minn á hugtakinu pólitískur. Ég er hins vegar á móti stóriðju af pólitískum ástæðum sem ég hef talað hér oft fyrir eins og hv. þingmanni er vel kunnugt. En ég vil ekki segja að þær ástæður séu trúarlegs eðlis. Trúarlíf mitt kemur þar hvergi nærri.

Varðandi tækniframfarirnar þá er ég auðvitað hjartanlega sammála hv. þingmanni um að við horfum fram á verulegar tækniframfarir, ótrúlegar tækniframfarir, á hverju einasta ári sem allir auðvitað fagna svo fremi þær séu notaðar og nýttar til góðs fyrir þróun mannkyns. Við eigum alltaf að horfa til þróunar mannkyns alls, að sjálfsögðu, þegar við tölum um sjálfbæra þróun á Íslandi. Slagorðið sem búið var til í Ríó-ferlinu árið 1992 og fjallaði um að við ættum að hugsa hnattrænt en bregðast við heima fyrir, vinna heima fyrir, er í fullu gildi í mínum huga. Mér finnst einmitt það sem við erum að gera á Íslandi, m.a. djúpborunarverkefnið, geta fært okkur möguleika til þess að iðka sjálfbæra þróun á Íslandi sem mundi þá verða til eftirbreytni fyrir önnur samfélög. Mér finnst það vera að leggja lóð á vogarskálarnar á Íslandi að skapa sjálfbært samfélag sem er sjálfu sér nægt um orku, fyrirmyndarsamfélag á heimsvísu. Mér finnst það vera gríðarlegt afrek sem við eigum að stefna að. Þess vegna aðhyllist ég, og hef talað fyrir því á Alþingi, sjálfbæra orkustefnu sem gengur út frá því að Íslendingar, þjóðin, geti afskaffað allt jarðefnaeldsneyti og keyrt allar sínar þarfir á nýrri tækni, tækninni sem varðar vetnið. En ég trúi ekki að við verðum nokkru sinni aflögufær með það, þ.e. getum flutt það út.