132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[14:47]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bið þingmanninn að gæta þess hvað hann er að segja hér í ræðustólnum. Hann er að leggja út af þessu frumvarpi á allt annan veg en efni frumvarpsins gefur til kynna. Hér er verið að tala um að greiningardeild lögreglunnar sinni því verkefni sem þarna er lýst og hann fer að tala um leyniþjónustu, starfsemi ríkja sem reka slíka starfsemi og ímynda sér einhverja hluti sem hann segist hafa (Gripið fram í.) kynnst á vettvangi Evrópuráðsins.

Evrópuráðið hefur ekki gefið út neinar leiðbeiningar um starfsemi leyniþjónustu. Evrópuráðið hefur fjallað um það hvernig hin almenna lögregla getur haft réttarheimildir til að gæta öryggis borgaranna án þess að stofnaðar séu leyniþjónustur. Það er um það sem þetta snýst, sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu. Ef menn á enskri tungu eru að tala um leyniþjónustu og annað slíkt nota þeir ekki þau hugtök sem við erum að nota í þessu frumvarpi til lögreglulaga. Þó að hv. þingmaður sé vel kunnugur málefnum Evrópuráðsins verður hann líka að skilja hvað þar fer fram.