132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[15:20]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson kom víða við í ræðu sinni og má taka undir það með honum að þegar þessi mál eru til umræðu verður jafnan að hafa í huga virðingu fyrir mannréttindum. Auðvitað verður alltaf að nálgast auknar valdheimildir hins opinbera til eftirlits með borgurunum af varúð. Hins vegar er það líka ein af grundvallarskyldum ríkisvaldsins að vernda öryggi borgaranna og síðan er það um leið grundvallarskylda ríkisvaldsins að standa vörð um þá stjórnskipan sem er í landinu. Í lýðræðisríki mega menn ekki missa sjónar á því að það geti þurft að standa vörð við það lýðræðisskipulag sem við búum við.

Varðandi efnisatriði í ræðu hv. þingmanns þá verð ég að segja að hann, eins og reyndar sumir aðrir hv. þingmenn sem hafa tekið til máls í dag, virðist vera að tala um annað frumvarp en það sem liggur á borðum. Mörg af þeim atriðum sem þeir beina spjótum sínum að er ekki að finna í frumvarpinu sem við ræðum hér. Mér finnst því mikilvægt að það komi fram að þetta frumvarp felur sem slíkt ekki í sér neinar breytingar á því hvað er refsivert í landinu. Þau brot sem vísað er til í sambandi við verkefni rannsóknar- og greiningardeildar eru refsiverð og hafa verið refsiverð um langa hríð.

Frumvarpið felur heldur ekki í sér auknar rannsóknarheimildir lögreglu. Við erum ekki að fjalla um það efni. Það er ekki efni þessa frumvarps. Frumvarpið sem við hér ræðum að því er lýtur að rannsóknar- og greiningardeildinni felur í sér breytt skipulag sem á að gera það að verkum að skipulag lögreglunnar henti betur til að sinna þeirri starfsemi sem hún ber ábyrgð á nú þegar.