132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Friðlýsing Jökulsár á Fjöllum.

68. mál
[17:54]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S):

Frú forseti. Þessi tillaga til þingsályktunar um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum er nú lögð fyrir Alþingi fjórða sinni. Í öndverðu var flutningsmaður ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir en síðar höfum við bæst í hópinn, ég ásamt hv. þingmönnum Siv Friðleifsdóttur, Össuri Skarphéðinssyni og Guðjóni A. Kristjánssyni. Við erum með öðrum orðum úr öllum stjórnmálaflokkum sem stöndum að þessari tillögu sem ég tel í raun mjög merkilegt og þýðingarmikið. Ástæðan fyrir því að ég mæli nú fyrir tillögunni er hv. þingmönnum kunnug. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon varð fyrir slysi og er nú með veikindaleyfi svo að ég hljóp í skarðið.

Tillagan er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum. Friðlýsingin taki til alls vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum að Kreppu og öðrum þverám meðtöldum með náttúrulegum rennslisháttum, þar sem hvers kyns röskun og mannvirkjagerð er bönnuð. Sérstaklega verði hugað að því við undirbúning málsins hvernig friðlýsing Jökulsár á Fjöllum skuli tengjast núverandi þjóðgarði í Jökulsárgljúfrum og fyrirhuguðum Vatnajökulsþjóðgarði og stofnun frekari þjóðgarða eða verndarsvæða norðan jökla.“

Ég tók það fram í umræðum á síðasta þingi að ég teldi hvert orð skipta hér máli og þýðingarmikið að Alþingi samþykki tillögugreinina eins og hún liggur fyrir.

Í greinargerð með tillögunni er rifjað upp að frá því að tillagan var fyrst flutt á 130. löggjafarþingi hefur sérstök nefnd verið skipuð um stofnun þjóðgarðs eða verndarsvæðis norðan Vatnajökuls. Þáv. umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, skipaði nefndina og nú hefur þessi nefnd skilað niðurstöðum. Var skýrsla nefndarinnar gefin út af umhverfisráðuneyti og í megintillögum nefndarinnar segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin leggur til að svæði þjóðgarðs norðan Vatnajökuls nái frá vatnaskilum á Vatnajökli í suðri til Tungnársvæðis vestan jökuls og taki yfir Vonarskarð, Tungnafellsjökul, meginhluta Ódáðahrauns, Jökulsá á Fjöllum ásamt helstu þverám eins og Kreppu, Kverká, Svartá og vatnasviði öllu eins og við verður komið, Vesturöræfi, Snæfell og Eyjabakkasvæðið.“

Í greinargerðinni með þessari tillögu og eins í framsöguræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar er gerð mjög nákvæm grein fyrir því stórbrotna svæði sem við erum að tala um, og geta hv. þingmenn kynnt sér þau gögn. Ég sé þó ástæðu til að undirstrika þau orð sem standa í greinargerð, með leyfi hæstv. forseta:

„Virkjanir, uppistöðulón, vatnsmiðlun og vatnaflutningar eru hins vegar þær framkvæmdir sem á seinni áratugum eru algengustu ástæður þess að náttúrulegum rennslisháttum fallvatna hefur verið raskað. Ef svo heldur fram sem horfir á Íslandi verða nokkur af stærstu jökulvötnum landsins miðluð og náttúrulegum rennslisháttum þeirra gjörbreytt innan fárra ára. Hér er átt við Þjórsá og Tungnaá sem þegar má heita að séu fullmiðlaðar og síðan bætast Jökulsá á Dal og Jökulsá í Fljótsdal í hópinn. Í þessu ljósi verður verndargildi Jökulsár á Fjöllum og Kreppu með óbreyttum rennslisháttum enn þá meira en ella. Allt stefnir í að Jökulsá á Fjöllum verði eina verulega korguga jökulfljótið í þessum stærðarflokki sem ekki hefur enn verið hróflað við.“

Ég bið hv. þingmenn að hafa þetta í huga. Þessari tillögu var vísað til umhverfisnefndar og hafa borist umsagnir frá ýmsum aðilum og eru flestar jákvæðar. Þannig er umsögn Náttúruverndarsamtaka Vesturlands sú að þingsályktunartillagan sé tímabær og tekið er undir greinargerðina sem henni fylgir í öllum atriðum. Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi segja, með leyfi hæstv. forseta:

„Verndargildi landslags Jökulsár er vel þekkt en í tillögunni er sérstaklega tekið fram að vernda beri vatnasvið Jökulsár. SUNN lýsa yfir sérstökum stuðningi við þann hluta tillögunnar. SUNN telja að samþykkt þessarar tillögu hafi ekki neikvæð áhrif á þá náttúruverndaráætlun sem nú er unnið að og fjallað var um á síðastliðnu umhverfisþingi, heldur muni samþykkt hennar styrkja þá áætlun. Undirbúningur friðlýsingar er langt ferli og því mikilvægt að vilji Alþingis komi skýrt fram.“

Náttúrustofa Austurlands tekur undir þessa tillögu og Umhverfisstofnun styður fram komna þingsályktunartillögu:

„Umhverfisstofnun styður framkomna þingsályktunartillögu og að mati stofnunarinnar segir greinargerðin með henni flest sem segja þarf um þetta mikilvæga mál.“

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:

„Af þeim 35 virkjunarkostum sem skoðaðir voru mundi virkjun Jökulsár á Fjöllum hafa mest áhrif á náttúru og minjar.“ — Hér er undirstrikað að um ómetanleg náttúruauðæfi fyrir komandi kynslóðir sé að tefla.

Stjórn Landverndar tekur undir sjónarmiðin sem fram koma í tillögunni, sömuleiðis Náttúrufræðistofnun. Í þeirra greinargerð segir m.a., með leyfi forseta:

„Með friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum, ásamt fyrirhuguðum Vatnajökulsþjóðgarði og stækkun Skaftafellsþjóðgarðs til suðurs … næðist að friðlýsa afar merkar náttúruminjar innan samfellds landsvæðis sem teygði sig þvert yfir landið frá suðurströnd til norðurstrandar.

Jökulár eru m.a. einkennandi fyrir náttúru Íslands. Með friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum næðist verndun a.m.k. einnar stórár landsins, ásamt vatnasviði, frá upptökum til ósa.“ — Þetta tel ég mjög þýðingarmikið.

Dýraverndunarfélögin taka undir þessa tillögu og ferðamáladeild Hólaskóla. Hins vegar bregður svo við að Vegagerðin leggst gegn tillögunni. Vil ég, með leyfi forseta, skýra hverjar ástæður þess eru:

„Vegagerðin er nú með í frumhönnun nýja brú á Jökulsá á Fjöllum við Grímsstaði og einnig veg um svæðið vestan ár frá hringvegi að Kelduhverfi. Allt er þetta innan svæðisins þar sem banna skal alla mannvirkjagerð samkvæmt tillögunni. Vegagerðin telur að alls ekki eigi að samþykkja þessa tillögu með þessum ákvæðum.“

Þeir eru miklir bókstafsmenn í Vegagerðinni og ekkert nema gott um það að segja. Það lýtur hinu sama og Bændasamtökin segja, sem styðja að vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum verði friðlýst, þó með þeim fyrirvara að heimilaðar verði aðgerðir til að verjast landbroti og flóðum eins og nauðsynlegt kann að verða til að verja náttúruperlur á borð við Herðubreiðarlindir og land í byggð á Öxarfirði.

Þetta tel ég hvort tveggja sjálfsagt og vandalaust, að koma því fyrir eins og frá friðlýsingu verður gengið. Það kom fram í ræðu minni og hefur jafnframt komið fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að eðlilegt er að bændur geti áfram nýtt landnytjar á Mývatnsöræfum svo að eitthvað sé talið. Ég hygg að með því að vernda vatnasvið Jökulsár á Fjöllum séum við t.d. ekki að berjast sérstaklega fyrir uppblæstri, ef það skyldi vera hugmynd einhvers.

Við viljum standa vörð um þá merkilegu náttúru sem er norðan Vatnajökuls og um þessa jökulá sem nú er orðin einstök hér á landi. Um það þarf ekki að fara fjölmörgum orðum, eins og kemur fram í umsögn frá Samtökum ferðaþjónustunnar. Þau hafa áhyggjur af því að friðlýsingin kunni að draga úr arðsemi ferðaþjónustu á svæðinu og að friðlýsing komi til með að takmarka aðgengi ferðamanna. Sá er ekki tilgangurinn heldur hygg ég þvert á móti að a.m.k. sumir okkar þingmanna séu þeirrar skoðunar að ákveðin mannvirkjagerð um öræfi landsins sé nauðsynleg til að vernda náttúruna. Þá er ég kannski ekki hvað síst að tala um hið viðkvæma svæði norðan Vatnajökuls, sem er hálfgert eyðimerkurlandslag. Þar er gróður mjög viðkvæmur og því nauðsynlegt að fylgjast grannt með að götuslóðar séu vel merktir og sums staðar nauðsynlegt að byggja upp vegi.

Á hinn bóginn eru það aðallega Samtök iðnaðarins sem leggjast gegn þessari tillögu og auðvitað Orkustofnun, sem horfir til þess að virkja ána. Í umsögn Orkustofnunar segir t.d. að einkum hafi verið horft til þess að mannvirki tengist með engu móti sjálfum Dettifossi og um leið yrði tryggt visst lágmarksrennsli um fossinn.

Við sem elskum þetta svæði vitum að fyrir kemur að lítið rennsli er í ánni. Þegar svo ber við leggja hugrakkir menn í að fara á stórum jarðýtum yfir á vaði en leyfa ekki öðrum að fara með, nema þá í mesta lagi konunni sinni, vegna þess að það er mannháski að ferðast þarna um. En við elskum ána ekki síður þegar aflið er mest í Dettifossi. Ég hef einu sinni komið að fossinum í miklu flóði og satt að segja gleymi ég þeirri stund aldrei. Við erum að tala um Jökulsá eins og hún er, þetta svæði eins og það er, en getum undir engum kringumstæðum fallist á þessi sjónarmið.

Á öðrum stað í umsögn Orkustofnunar segir:

„Ein leið til að hemja ána að þessu leyti er að grófari hluti aurframburðar verði felldur út í miðlunarlónið. Þetta er dæmi um hvernig verndun og hagnýt beislun árinnar geta farið saman.“

Ef ég man rétt, herra forseti, sagði Þorsteinn Erlingsson:

Nei. Það er svo stopult, hvað þeim sýnist frítt.

Nú þykir þeim sælast að dreyma,

að þú værir asni, sem upp í er hnýtt

og íslenskar þrælshendur teyma.

Þetta er ekki sú sýn sem ég hef á Dettifoss. Ég horfi frekar til Dettifoss með augum Kristjáns Fjallaskálds og Matthíasar Jochumssonar:

Þó af þínum skalla

þessi dynji sjár,

finnst mér meir, ef falla

fáein ungbarnstár.

Þetta segir Matthías, sá miklu húmanisti og mannvinur. Hann hreifst eftir sem áður af fossinum. Ég vonast, herra forseti, til að umhverfisnefnd muni, þegar hún hefur skoðað málið og umsagnir liggja fyrir, að hún sjái efni til þess að afgreiða það á þessu þingi. Það er mjög þýðingarmikið að menn átti sig á vilja þingsins varðandi Jökulsá á Fjöllum. Ég hygg að okkur fari fjölgandi sem kunnum að meta það gildi sem þessi stórbrotna náttúra hefur fyrir land okkar og fyrir framtíðina.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til síðari umr. og umhverfisnefndar.