132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Friðlýsing Jökulsár á Fjöllum.

68. mál
[18:24]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er auðvitað með ólíkindum að þessi tillaga skuli ekki hafa verið samþykkt fyrir mörgum árum. En fullreynt er í fjórða sinn og ég tek undir með þeim þingmönnum sem hér hafa áður talað að nú hlýtur Alþingi loksins að taka af skarið. Okkur sem í dag erum að þreyta þessa umræðu finnst það kannski skrýtið að það skuli ekki fyrir löngu kominn almennur samsláttur í samfélaginu um að ganga með þessum hætti frá málinu, ljúka því í eitt skipti fyrir öll af því fólk hyllist til að telja að það sé sjálfsagt og okkur sem erum að ræða þetta mál í dag finnst það sjálfsagt. En samt er það þannig að enn eru þeir menn á ferli þar sem síst skyldi sem vilja virkja Jökulsá á Fjöllum. Nú eru að vísu liðin fjögur á frá því við ræddum um Kárahnjúka og virkjunina þar. En ég minnist þess sérstaklega að með því frumvarpi sem þá var samþykkt fylgdi sérstakt skjal frá Orkustofnun þar sem verið var að ræða ýmsa virkjunarmöguleika, virkjunarkosti og hugmyndir um stórar og litlar virkjanir á svæðinu norðan og norðaustan Vatnajökuls. Þar komu fram, hvorki á fleiri né færri stöðum en sjö, hugmyndir orkustofnunarmanna um að virkja með einhverjum hætti í ánni. Það var einmitt úr þeirri umræðu sem síðast spratt fram þessi hugmynd sem reyndar hafði áður verið á kreiki sem hv. síðasti ræðumaður minnist á, að reyna að sætta hina ólíku hagsmuni annars vegar náttúruverndar og ferðamennsku og hins vegar virkjunariðnaðarins með því í reynd að setja krana á Dettifoss, þ.e. að hleypa af á fullum krafti þessarar miklu móðu einungis yfir háferðamannatímann en þar fyrir utan nota kraftinn úr honum til að framleiða orku.

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að þessar hugmyndir hafa verið til og fram undir það síðasta. Það er því nauðsynlegt fyrir okkur, hið háa Alþingi að setja punkt aftan við þessa umræðu. Ég er einn af þeim sem njóta þeirra forréttinda að fá að flytja þetta frumvarp með hv. þingmönnum Steingrími J. Sigfússyni, Halldóri Blöndal, Kolbrúnu Halldórsdóttur og formanni Frjálslynda flokksins, Guðjóni Arnari Kristjánssyni. Ég naut líka þeirra forréttinda að fá að vera í nefndinni með hv. 1. flutningsmanni Steingrími J. Sigfússyni sem lauk skýrslu og gerði tillögur um þjóðgarð norðan og norðaustan Vatnajökuls. Ég minnist þess sem ég stend hér eftir að hafa hlustað á orðkynngi hv. þm. Halldórs Blöndals og skáldríki í tölu hans áðan að sennilega hef ég aldrei farið skemmtilegri ferð en þá sem ég fór með þeim nefndarmönnum, tveggja daga sólríka ferð um svæðið norðan Vatnajökuls, Gæsavatnaleið, og komum meira að segja í Vonarskarð sem ég hafði aldrei komið í áður. Það var ævintýrinu líkast á sólbjörtum degi að sjá vötnin spretta upp í Vonarskarði og renna til sitt hvorar áttar.

Sú nefnd ræddi töluvert lengi um hvort hún ætti að gera það að hluta af tillögum sínum að friðlýsa Jökulsá á Fjöllum. Það var ekki síst fyrir sannfæringarkraft hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem ákveðið var að gera það að hluta þeirra hugmynda. Það byggði ekki síst á þeirri nálgun sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir reifaði í máli sínu áðan. Til að gera þetta mikla svæði norðan og norðaustan Vatnajökuls að þjóðgarði, af þeirri tegund sem er svo ágætlega reifuð í skýrslu okkar nefndarmanna og er töluvert öðruvísi hugsun heldur en er um þjóðgarða almennt, kom fram sú hugmynd að eðlilegt væri að gera það í áföngum. Eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði hérna áðan er það alveg tilvalinn áfangi, hugsanlega hinn fyrsti, að láta hendur standa fram úr ermum og friðlýsa vatnasvið Jökulsár á Fjöllum. Okkur þykir auðvitað öllum vænt um hv. þm. Steingrím J. Sigfússon og söknum hans héðan úr sölum okkar og viljum allt af mörkum leggja til að bati hans megi vera sem bestur og skjótastur. Ég ímynda mér að ekkert muni koma hv. þingmanni, formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til jafngóðrar heilsu og einmitt ef Alþingi Íslendinga mundi nú samþykkja þessa tillögu sem hann hafði að góðu heilli frumkvæði að. Ég held að það væri tilvalið að gera það einmitt.

Ég held að á þessu síðustu árum þegar við höfum tekist harkalega á í þingsölum um hina ólíku hagsmuni virkjana og náttúruverndar hafi það þrátt fyrir allt orðið til þess að öll höfum við hnikast nokkuð úr stað. Ég held að einmitt hin heiftarlega umræða á köflum hafi gert það að verkum að okkur er öllum miklu betur ljóst en áður nauðsynin á því að taka frá stór einstök svæði og vernda þau um ókomna framtíð. Landið mótar okkur, mótar hugsýn okkar og sjálfsmynd sem Íslendinga alveg eins og tungan gerir. Ef tungan er frá okkur tekin og náttúran er frá okkur tekin molnar sá stallur sem arfleifð okkar Íslendinga hvílir á. Stundum er sagt að við fáum einungis landið og náttúruna í vörslu okkar og eigum að skila því áfram til næstu kynslóðar. Í rauninni er ekki hægt að hugsa sér nokkurn verri glæp en þann að taka landsvæði sem eru ómetanleg, sem ekki er hægt að kalla fram aftur í upprunalegt horf og lakka það með þeim hætti að þær kynslóðir sem eiga eftir að byggja þetta land um ókomna tíð fái aldrei notið þeirrar upplifunar sem við höfum fengið að njóta með því að ferðast um það og vera með því og stundum á þeim einstöku augnablikum þegar hamingjan verður til í sálum mannanna, að renna saman og upplifa þessa tilfinningu að maður og náttúra verði eitt. Það gerist ekki síst á þeim hrikalegu svæðum norðan og norðaustan Vatnajökuls, í hinum miklu gljúfrum sem hinar korguðu jökulár hafa árþúsundum saman sorfið í gegnum klettana sem urðu til af hrauninu þegar eldarnir brunnu. Þessi náttúra er í reynd eins konar stöpull af þeirri hugsun sem við höfum um Ísland, okkur sjálf og um framtíðina. Og okkur ber skylda til þegar eitthvað er einstakt og sérstakt og öðruvísi en allt annað að vernda það.

Það er búið að ráðast í allar hinar stóru jökulelfur á Íslandi, það er búið að breyta þeim og engin þeirra, í öllu sínu mikla veldi, er í því sem kalla má upprunalegri mynd nema Jökulsá á Fjöllum. Það er gildasta röksemdin fyrir því að samþykkja tillöguna sem hér liggur fyrir um að vernda hana um aldur og ævi og ókomin ár í því formi sem hún er í núna og vatnasvið hennar allt. Því hvet ég til þess, virðulegi forseti, að (Forseti hringir.) Alþingi taki af skarið í þessu efni.