132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum.

213. mál
[18:51]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Í örfáum orðum vil ég lýsa eindregnum stuðningi við þetta þjóðþrifamál. Ég er ánægður með að þeir þingmenn sem hér hafa talað styðja það greinilega af mikilli hörku. Ég vildi óska að hið háa Alþingi bæri gæfu til þess að samþykkja þetta núna. Ég held að flestir þeir sem hlýddu á mál hv. framsögumanns og fumkvöðuls að málinu, Guðrúnar Ögmundsdóttur, hafi séð það í fljótu bragði að hér er um að ræða mál sem felur í sér ekkert nema réttlæti.

Það er mikil ósanngirni að stjórnvöld skuli ekki tryggja jafnrétti í þessum málum með því að styðja þá foreldra sem fara til útlanda til þess að ættleiða börn. Eins og þingmenn hafa getið um hér í dag er mikil lífshamingja fólgin í því að eignast börn og hún er ekki síðri hjá þeim sem hafa beðið eftir því árum saman og upplifað að lokum þá hamingju sem felst í því að fá barn í hendur sínar til ættleiðingar. En því miður kostar það mikla fjármuni. Hv. flutningsmaður drap á það í framsögu sinni að líkast til mætti slá á það að það kostaði 1,2–1,5 milljónir. Um þetta get ég borið vitni af eigin raun því að ég hef sjálfur ættleitt tvö börn frá útlöndum og því fylgir auðvitað mikill kostnaður sem enginn horfir í sem á annað borð hefur efni á því vegna þess að hamingjan sem því fylgir og kemur í staðinn er svo mikil og rík. En því miður er það einfaldlega staðreynd að það geta ekki allir leyft sér þetta vegna kostnaðar. Í því felst óréttlætið í kerfinu í dag og á því þarf að taka.

Áður fyrr var það þannig að einstakir skattstjórar í umdæmum landsins af mildi síns hjarta lásu lögin um skattheimtu ríkisins með þeim hætti að það var stundum hægt fyrir suma að fá kostnaðinn dreginn frá skattstofni. En við það voru gerðar athugasemdir og þegar ættleiðandi foreldrar og samtök þeirra börðust fyrir því að sá háttur yrði tekinn upp víðar varð það til þess að yfirvöld slökktu á þeim möguleika. Í dag er það einfaldlega þannig að það eru engir styrkir sem hægt er að fá til þess að kosta ferðalög, sem oft á tíðum taka langan tíma. Í sumum tilvikum er það að vísu þannig að verklýðsfélög hafa af rausn sinni látið töluverðar upphæðir af höndum rakna í tilvikum þar sem viðkomandi eiga erfitt með að standa straum af kostnaðinum og það er auðvitað ákaflega glæsilegt af þeim, en hér á landi þarf auðvitað að vera sama kerfi og er á Norðurlöndunum þar sem stjórnvöld með myndarlegum hætti — mismyndarlegum að vísu eftir því um hvaða land er að ræða — taka undir með fólki og hjálpa því með því að veita því styrki.

Því segi ég það, virðulegi forseti, að ég held að það væri Alþingi til mikils sóma að samþykkja þetta mál og þakka hv. frumkvöðli málsins og þingmanni, Guðrúnu Ögmundsdóttur, fyrir sína aðkomu að þessum málaflokki.