132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Samkomulag Kennarasambandsins og menntamálaráðherra.

[12:02]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegur forseti. Á dögunum kynnti hæstv. menntamálaráðherra samkomulag sitt og kennaraforustunnar þess efnis m.a. að áformum um að stytta og þar með skerða nám til stúdentsprófs væri frestað. Margt í samkomulaginu var ákaflega gott og margt sem horfir til framtíðar gangi samkomulagið eftir. Mun það að sjálfsögðu ráðast á næstu mánuðum og missirum og fagnaðarefni í sjálfu sér að gerð var tilraun til að ganga með einhverjum hætti í takt við skólasamfélagið eftir ákaflega hryssingsleg og blóðug átök við skólasamfélagið allt í þessu máli og mörgum öðrum.

Síðan þá hefur gætt nokkurrar ólgu í kjölfar samkomulagsins, hvað það fæli í sér og m.a. kom upp umræða um að ekki hefði verið samið um að stytta nám en í yfirlýsingu frá Kennarasambandinu kemur fram að þegar samkomulagið var undirritað lá fyrir að menntamálaráðherra hefði ekki fallið frá því að stytta námstímann úr 14 árum í 13, eins undarlega og það nú hljómar þar sem framhaldsskólinn er ekki 14 ár eða 13. Tekur þetta væntanlega til námstímans alls og þess vegna ágætt að hæstv. menntamálaráðherra skýri frá því hvort samkomulagið feli í sér að til álita komi að stytta grunnskólann en ekki framhaldsskólann.

Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. menntamálaráðherra. Nú var framhaldsskólanum og skólasamfélaginu gefinn ákveðinn gálgafrestur með þessu samkomulagi, þannig að ekki yrði gengið á gæði námsins með samkomulaginu á dögunum og með því að fresta áformum um að stytta námstíma til stúdentsprófs. Síðan hefur hæstv. ráðherra sagt að frumvarp þess efnis sem tæki á styttingunni komi inn í þingið fyrir vorið. Því vildi ég spyrja ráðherra: Hvenær er von á því frumvarpi? Tekur það frumvarp til bæði grunn- og framhaldsskólalaga?

Ég skora á hæstv. ráðherra að koma sem fyrst með þetta frumvarp þannig að lægja megi þá ólgu sem liggur undir niðri í mörgum framhaldsskólum landsins og sérstaklega í því ljósi að samkomulagið gangi eftir og þau ágætu og góðu markmið sem þar koma fram. Þau ganga ekki eftir nema sátt haldist og náist við skólasamfélagið í fullri alvöru.