132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Samkomulag Kennarasambandsins og menntamálaráðherra.

[12:04]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ljóst er að kennaraforustan gengur samstiga fram í þessu máli eins og yfirlýsing Kennarasambandsins frá því í morgun ber augljóslega merki. Ég vil sérstaklega fagna því sem kemur fram í yfirlýsingunni. Það sem skiptir núna mestu máli í þessu öllu saman er að bæði ráðuneyti menntamála og kennaraforustan gangi samstiga að því verki sem liggur fyrir, þ.e. að við erum að horfa á skólakerfið sem eina heild, og það hef ég ávallt sagt. Við erum ekki að horfa á skólakerfið sem kassa. Við munum leggja mikla áherslu á að skólaskilin verði sveigjanleg, að við horfum til skólastiganna milli leikskóla og grunnskóla og síðan á milli grunnskóla og framhaldsskóla og reynum þannig að skapa og móta skólakerfi sem verði samkeppnishæft við það sem við viljum ávallt bera okkur saman við, þ.e. það besta í heimi.

Ég legg áherslu á að við munum halda áfram að vinna í samræmi við það samkomulag sem var undirritað af mér og formanni Kennarasambandsins. Við munum fara gaumgæfilega yfir öll þau atriði og vera samhent og samstiga í þeirri viðleitni okkar að gera skólakerfið enn þá betra en það er í dag. Það eru margir merkilegir og mikilvægir punktar, raunar eru allir tíu punktarnir sem eru dregnir fram afar þýðingarmiklir til að skólakerfið styrkist enn frekar, og ég vil sérstaklega draga fram kennaramenntunina. Ég vil einnig draga fram almennu brautina og það að við munum núna fara í allsherjarendurskipulagningu á endurskoðun á allri skólalöggjöfinni, þ.e. leikskólalöggjöfinni, grunnskólalöggjöfinni og framhaldsskólalöggjöfinni og það gerum við að sjálfsögðu í samvinnu og samstarfi við kennarasamfélagið. Þetta mun koma í ljós á allra næstum dögum.

Það sem liggur líka fyrir og ég vil draga fram er að við þurfum að líta til samræmdra prófa og rétt að draga það fram að afar líklegt er að í ljósi þess sem tengist breyttri námsskipan til stúdentsprófa, að það fyrirkomulag muni breytast, frú forseti.