132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Samkomulag Kennarasambandsins og menntamálaráðherra.

[12:11]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Oft gerist það úr þessum ræðustól að hv. þingmenn koma upp og skamma hæstv. ráðherra fyrir að hafa lítið samráð við hagsmunaaðila, við þingheim og þar fram eftir götunum. Eflaust er í einhverjum tilvikum alveg fullt tilefni til slíkra skamma en í þessu tilviki held ég að sé ástæða til að taka einmitt undir ánægju með þær sögulegu sættir og um samráð á milli ráðuneytisins og skólasamfélagsins. Ástæða er til að taka undir þær ánægjuraddir sem um það hafa komið hér þó að maður skilji að vísu örlitla ólgu hjá hv. málshefjanda og þungar áhyggjur sem svona jaðra við þau vonbrigði sem fram komu hjá hv. þingmanni einmitt þegar þessar sögulegu sættir náðust á dögunum. En ég vona að hv. þingmaður hafi jafnað sig á því og taki þátt í þeirri gleði sem almennt er ríkjandi innan skólasamfélagsins vegna þess að skólasamfélagið hefur í fullri sátt náð samkomulagi við ráðuneytið um þessa tíu punkta sem ná yfir skólakerfið í heild sinni. Menn ætla að fara opnum augum og skoða með hvaða hætti við megum bæta skólakerfið í heild sinni og náist slík sátt er það að sjálfsögðu fagnaðarefni. Þess vegna vona ég að allir taki þátt í þeirri gleði og áhyggjur manna fari minnkandi en vitaskuld er ekki ætlast til þess að hæstv. ráðherra komi hér núna og segi hverjar niðurstöðurnar verði. Ég tek undir það með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur. Þá væri þetta ekki merkilegt samkomulag.

Hæstv. ráðherra hefur einmitt sagt að hún ætli að ganga opin inn í þetta tíu punkta samkomulag og það hlýtur að vera fagnaðarefni sem jafnvel nær til hv. málshefjanda.