132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Samkomulag Kennarasambandsins og menntamálaráðherra.

[12:17]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Björgvini Sigurðssyni fyrir að vekja máls á þessu efni. Það sýnir að stjórnarandstaðan er vakandi í þessu máli og er harðákveðin í að veita ríkisstjórnarflokkunum sjálfsagt og eðlilegt aðhald.

Þar fyrir utan tel ég rétt að veita hæstv. menntamálaráðherra ákveðinn tíma, ráðrúm og frið, til að vinna áfram að þessu samkomulagi. Í morgun barst sú frétt að öll aðildarfélög Kennarasambands Íslands styddu þetta samkomulag. Ég hygg að þessi mál séu í ágætum farvegi þótt það hafi reyndar tekið allt of langan tíma fyrir hæstv. menntamálaráðherra að ná svo viturlegri lendingu að leita samráðs við Kennarasambandið. En nú hefur það verið gert, sem er hið besta mál.

Það er álit okkar í þingflokki Frjálslynda flokksins, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að leyfa beri því ágæta fólki að vinna að samkomulaginu. Hins vegar mun stjórnarandstaðan fylgjast grannt með. Það er nú einu sinni svo, virðulegi forseti, að ríkisstjórnarflokkunum, þeim sem nú ráða þessu landi, farnast ávallt best þegar þeir hlusta á hollráð frá stjórnarandstöðunni.