132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Samkomulag Kennarasambandsins og menntamálaráðherra.

[12:19]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ef það átti að skilja orð hæstv. ráðherra svo hér áðan að ekki væri von á þessu styttingarfrumvarpi í þingið á þessu missiri, ef það mál á að bíða og fá að þróast í skólasamfélaginu, þá er það vissulega fagnaðarefni. Við fögnum því að hæstv. ráðherra hafi farið inn á þessa tíu spora leið sem felur í sér ágæt markmið.

Eftir stendur sú ólga sem vissulega kom upp í kjölfarið, sem er ekki óeðlilegt að komi upp í jafnstóru og miklu samfélagi eins og skólasamfélaginu, m.a. hjá kennurum í Menntaskólanum í Reykjavík, á Akureyri, Verkmenntaskólanum á Akureyri og Verslunarskóla Íslands. Þeir vilja fá svör við því og við því þurfa að koma fram skýr svör: Verða bekkjarskólarnir eftir sem áður, þrátt fyrir sveigjanleika og flæði á milli skólastiga, styttir klárt og kvitt um eitt ár? Verður bekkjarskólunum gert skylt að stytta nám sitt úr fjórum árum í þrjú? Harkan í þeim styttingaráformum var gagnrýnd hvað mest á sínum tíma. Ánægjuefnið nú er helst að horfið var frá styttingaráformunum, a.m.k. í bili. Menntapólitísku stórslysi var afstýrt, hægt á vinnu í málinu og samvinna tekin upp við skólasamfélagið um að ná fram markmiðum um betri skóla, sem er grundvallaratriði.

Ég vil því fá skýr svör við því hvort það sé rétt túlkun hjá okkur hv. þingmönnum að ráðherrann ætli ekki að koma með frumvarpið inn í þingið á vorþingi og hvort bekkjarskólunum verði að mati ráðherra áfram gert að stytta nám sitt úr fjórum árum í þrjú. Eða verður þeim gefið frelsi, eins og öðrum skólum, t.d. áfangaskólunum, til að þróast hver með sínum hætti? Þetta eru spurningarnar sem ég vildi fá skýr svör við í umræðunni í dag.