132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Stúdentspróf.

358. mál
[12:32]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir þessi svör sem eru í raun mjög upplýsandi. Í þeim kemur í ljós mikill munur á námstíma til stúdentsprófs á milli bekkjarskólanna eða menntaskólanna annars vegar og fjölbrautaskólanna hins vegar. Hæstv. ráðherra rakti hugsanlega eina af mörgum ástæðum þess. Ég vil leggja áherslu á það í máli mínu að ástæðan fyrir þessari fyrirspurn er einmitt sú endurskoðun sem stendur yfir og vinna að námi til stúdentsprófs. Við hljótum alltaf að leita eftir því að hafa undirbúninginn sem vandaðastan og þannig úr garði gerðan að hann henti sem flestum, bæði hvað varðar innihald og einnig hvað varðar þann tíma sem það tekur að ná settu marki, þ.e. stúdentsprófinu í þessu tilfelli.

Hæstv. ráðherra minntist á áhyggjur af drengjum í skólakerfinu og ég held að það sé vissulega ástæða til að skoða það því þeir hafa náð þar lakari árangri almennt. Það er vissulega ástæða til að reyna að finna hvernig er hægt að bæta líðan þeirra í skólanum og bæta árangur þeirra. En jafnframt verðum við líka að skoða hvernig stúlkunum líður í skólanum og hversu mikla ánægju þær hafa af námi sínu. Þá staðreynd að stúlkum gengur betur og þær ná betri árangri í skóla má ekki eingöngu skrifa á það að áhugasvið þeirra falli betur að því sem fram er sett í skólanum, (Forseti hringir.) heldur vitum við að stúlkur eru oft og tíðum samviskusamari (Forseti hringir.) framan af aldri og ég held að það sé það sem kemur þarna í ljós.