132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Rekstur framhaldsskóla.

443. mál
[12:37]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Samfylkingin er á þeirri skoðun að það eigi að stíga skref í átt að því að flytja framhaldsskólann til sveitarfélaga. Því beini ég þeirri spurningu til hæstv. menntamálaráðherra hvort það komi til greina að hennar mati að flytja reksturinn til sveitarfélaganna og hvort það sé til skoðunar í ráðuneytinu. Ef ekki, stendur til að taka það til sérstakrar athugunar og þá með hvaða hætti?

Að mínu mati á að stefna að því að flytja framhaldsskólann til sveitarfélaganna og mörg máttug rök mæla fyrir því. Nú á næstunni verður kynnt hér frumvarp í þinginu sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson hefur unnið að og mun flytja. Í því frumvarpi eru fyrstu skrefin stigin í þá átt að leggja til breytingar á lögum um framhaldsskóla þess efnis að menntamálaráðherra verði heimilað að gera samning við sveitarfélög um rekstur framhaldsskóla. Mjög jákvætt mál og væri gott skref í þessa átt. Aukin samfella fyrir skólastig, eins og við höfum rætt hér í dag, er forsenda fyrir styttingu á námi og þess vegna tel ég það mjög heppilegt, til að ná þeim markmiðum sem best fram og þeim markmiðum sem við höfum rætt um í 10 spora leiðinni sem menntamálaráðherra gerði við kennaraforustuna á dögunum, að sami aðili, sveitarfélögin, reki öll skólastigin frá leikskóla og upp að háskóla.

Skólar og sveitarfélög hafi þá sjálfstæði til að fara hvert með sínum hætti. Sumir skólar séu lengri og aðrir styttri í stað miðstýringar að ofan. Gefa þeim frelsi. Fjölbreyttir skólar sem byggja á sérkennum svæða og byggða. Auk þess sem þetta mundi að sjálfsögðu styrkja sveitarfélögin mjög og hjálpa til við þá þróun að stækka þau og fækka þeim, sem hlýtur að vera pólitískt markmið í sjálfu sér. Það eru mörg dæmi um óheppilega skörun á milli ríkis og sveitarfélaga í skólarekstri eins og tónlistarnámið er ágætt dæmi um. Tónlistarnám er að mörgu leyti í hálfgerðu uppnámi og mikil óánægja ríkjandi með það fyrirkomulag. Skörunin á milli ríkis og sveitarfélaga veldur því að nemendur sem eiga ekki lögheimili í því sveitarfélagi þar sem tónlistarnámið fer fram lenda í erfiðleikum með að fá kostnaðinn við námið greiddan.

Að sjálfsögðu stefnum við að því að stækka sveitarfélögin og dreifa til þeirra verkefnum og valdi. Rekstur á framhaldsskóla er það skref sem ætti að stíga fyrst að mínu mati til að færa fleiri verkefni til sveitarfélaganna, sérstaklega þar sem rekstur þeirra á grunnskólunum hefur tekist ákaflega vel. Ég held að allir séu sammála því að rekstur grunnskólanna hefur tekið stórstígum framförum á síðustu 10 árum og framlög Íslendinga til grunnskólans hafa aukist stórkostlega á þessum 10 árum á meðan framlög til háskóla og framhaldsskóla eru undir meðallagi á kvarða OECD.

Allt er þetta mikilvægt í þessari umræðu og ég tel að við eigum að stíga þessi skref. Ég vona að hæstv. menntamálaráðherra hafi pólitískan vilja til að gera slíkt hið sama. Því beini ég þessari fyrirspurn til hæstv. ráðherra hér í dag.