132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Rekstur framhaldsskóla.

443. mál
[12:40]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Flutningur framhaldsskólans frá ríki til sveitarfélaga hefur ekki komið til tals í viðræðum ríkis og sveitarfélaga. Engin beiðni hefur borist, hvorki frá Samtökum sveitarfélaga né einstaka sveitarfélögum, um að taka þau mál til umræðu. Slík breyting hefur ekki verið til sérstakrar skoðunar í ráðuneytinu. En eflaust má hugsa sér að taka þetta mál til sérstakrar skoðunar, ekki síst ef sveitarfélögin óska eftir því, og setja það í forgang varðandi flutning starfsemi á milli ríkis og sveitarfélaga.

Ég tel hins vegar sjálf að við verðum að fara nokkuð varlega í sakirnar í þessum efnum. Vissulega dreg ég ekki í efa að stóru sveitarfélögin, t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu, hefðu fulla burði til að reka framhaldsskóla af myndarbrag. En hins vegar gegnir öðru máli um sveitarfélög í hinum dreifðu byggðum landsins þar sem aðstæður eru ekki eins góðar til að reka sameiginlega framhaldsskóla og er hér á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjunum og á þéttbýlli svæðum.

Nú er liðinn um áratugur síðan að núverandi rekstrarform grunn- og framhaldsskóla var tekið upp, þ.e. að sveitarfélögin annist rekstur grunnskólanna og ríkið rekstur framhaldsskólanna. Sú skipting er að mínu áliti í samræmi við sérstöðu skólastiganna. Grunnskólinn er heimaskóli í þeim skilningi að undantekningarlítið stunda nemendur nám í grunnskóla í sinni heimabyggð. Þessu er öðruvísi farið með framhaldsskólana. Nám í framhaldsskólum er ekki skyldubundið og nemendum er frjálst að sækja um hvern þann framhaldsskóla sem þeim hugnast best. Umtalsverður hópur nemenda á framhaldsskólastigi stundar hins vegar nám í skólum sem ekki eru staðsettir í því sveitarfélagi sem þeir búa í og jafnvel ekki í næsta sveitarfélagi, eins og við vitum um dæmi af á sunnanverðum Vestfjörðum. Þar sækja framhaldsskólanemendur ekki endilega á Ísafjörð heldur líka t.d. á Akureyri og hingað suður. (GAK: Það er út af samgöngum.)

Framhaldsskólarnir eru miklu margbreytilegri og sérhæfðari en grunnskólarnir. Margbreytileikinn og sérhæfingin er það mikil að erfitt er að sjá hvernig einstakir heimaskólar næðu að standa undir slíku. Við sjáum t.d. að á höfuðborgarsvæðinu er mikið um að nemendur fari á milli sveitarfélaga í framhaldsskólanám þrátt fyrir að þar séu stærstu skólarnir sem eiga auðveldast með að bjóða upp á fjölbreytilegt námsframboð.

Eins og skipun sveitarfélaga er háttað nú er ljóst að mörg þeirra eru of smá til að á þau sé leggjandi að annast rekstur framhaldsskóla. Vandkvæði sem biðu smærri sveitarfélaga við að halda úti nægilegri fjölbreytni í námi liggja í augum uppi. Í dag er framhaldsskólinn öllum opinn óháð búsetu. Landið er eitt innritunarsvæði og margar námsbrautir eru einungis í boði á einum eða tveimur stöðum á landinu. Yrði framhaldsskólinn færður til sveitarfélaga er eðlilegt að spyrja hvort þar með væri verið að endurvekja svæðisskólana og hin svokölluðu vistarbönd sem slíkt kerfi hefði í för með sér. Með flutningi framhaldsskólans frá ríki til sveitarfélaga er hættan sú að hér yrði til tvískipt kerfi. Annars vegar fjölgun skóla hér á höfuðborgarsvæðinu og þéttbýlli svæðum með mörgum skólum og fjölbreyttum námsleiðum sem stæðu einungis nemendum þeirra sveitarfélaga til boða og hins vegar skólakerfi utan höfuðborgarsvæðisins með skólum er ekki gætu boðið upp á sama framboð námsleiða eða náð að sérhæfa sig líkt og er í dag í þeim skólum sem börn landsbyggðarinnar sækja. Það má í þessari umræðu vísa til reynslunnar af tónlistarfræðslunni, sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom inn á hér áðan, sem fjármögnuð er af sveitarfélögunum. Á undanförnum missirum hafa nemendur á efri stigum tónlistarnáms oft lent í vandræðum hafi þeir þurft að leita út fyrir mörk síns sveitarfélags þegar hvorki sveitarfélagið sem rekur tónlistarskólann né heimasveitarfélag nemandans hafa reynst tilbúin til að greiða kostnaðinn þrátt fyrir að það sé alveg skýrt í lögum að tónlistarnámið er á ábyrgð sveitarfélaganna. Við vitum að Reykjavíkurborg sagði upp þessum samningum og samningar hafa ekki tekist á milli sveitarfélaganna, ekki einu sinni á þessu svæði, þannig að það er ljóst að lausn þessa máls, sem við vinnum nú að í ráðuneytinu og víðar, er ekki auðveld. En þetta eru þó smávaxin vandamál í samanburði við það ef sveitarfélögin ættu að sjá til þess að rúmlega 20.000 nemendur ættu greiða leið að framhaldsskólum óháð búsetu.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að Samfylkingin virðist í þessu máli sem fleirum ekki geta gert upp hug sinn, hver stefna flokksins sé. Á sama tíma og forustumenn flokksins segja það stefnu flokksins að framhaldsskólinn eigi að færast til sveitarfélaganna fara forustumenn flokksins í sveitarstjórnum fram á það við ríkið að það taki við tónlistarnámi á framhaldsskólastigi. Þess vegna vil ég hvetja samfylkingarmenn sérstaklega til að ákveða í hvorn fótinn þeir ætla að stíga í þessum málum.

Menntamál eru í eðli sínu mjög lifandi málaflokkur og breytingar þar hafa verið hraðfara á undanförnum árum og áratugum. Við verðum auðvitað að hafa, frú forseti, vakandi auga með (Forseti hringir.) þróuninni á þessu sviði menntamála sem og öðrum. En ég er ekki sannfærð um að þetta sé forgangsmál í flutningi verkefna á milli ríkis og sveitarfélaga.