132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Rekstur framhaldsskóla.

443. mál
[12:47]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ástæða þess að umræða um flutning framhaldsskólans til sveitarfélaga er ekki mikil á yfirborðinu — ég ítreka, á yfirborðinu, því hún er mikil meðal sveitarstjórnarmanna — er einfaldlega sú að sveitarfélögin eru hvekkt á fjármálalegum samskiptum við ríkið. Það er sama ástæða og liggur að baki því að farið er fram á að ríkið taki yfir tónlistarnámið.

Það er mikilvægt verkefni fyrir okkur að auðvelda flæði nemenda innan skólakerfisins alls, ekki bara í fjölbrautaskólunum þar sem merkileg hugmyndafræði gefur nemendum kost á að raða námi sínu eftir áhugasviði, hæfileikum og ytri aðstæðum. Þessari hugmyndafræði er hægt að koma á í skólakerfinu öllu, allt upp í háskóla, með því að færa sveitarfélögunum framhaldsskólana.