132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Rekstur framhaldsskóla.

443. mál
[12:49]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Því miður virðist hæstv. menntamálaráðherra ansi neikvæð í garð sveitarfélaga almennt og full af vantrú í þeirra garð. En hæstv. ráðherra datt allt í einu í gírinn og áttaði sig á því að Samfylkingin er nokkuð sterk við stjórnvölinn í Reykjavík og þar af leiðandi brenglaði það, held ég, nokkuð dómgreind hæstv. ráðherra.

Málið er ósköp einfaldlega þetta: Horfum til sögunnar. Hæstv. ráðherra ætti að kynna sér hvernig framhaldsskólarnir almennt urðu til á landinu. Það var fyrir frumkvæði sveitarfélaganna. Sveitarfélögin byggðu upp framhaldsskólakerfið sem við búum við í dag. Ef þessu hefði verið ríghaldið í krumlu ríkisvaldsins er ég hræddur um að við hefðum ekki við þann fjölbreytileika sem við búum þó við í dag.

Mér finnst ýmislegt benda til þess að ákveðin stöðnun sé í framhaldsskólunum, því miður. Þess vegna held ég að afar mikilvægt sé að hvetja sérstaklega til þess að sveitarfélögin leiti eftir því að taka við framhaldsskólunum. Ég vona svo sannarlega að hæstv. ráðherra muni beita sér fyrir því að sú tilraun verði gerð þannig að við getum fetað okkur inn í þessa framtíð. En til þess þurfum við auðvitað að gera (Forseti hringir.) ákveðna tilraun til að við áttum okkur á reynslunni.