132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Rekstur framhaldsskóla.

443. mál
[12:55]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þegar ég gekk í salinn heyrði ég hæstv. menntamálaráðherra tala um að Vestfirðingar sæktu ekki almennt um að fara í framhaldsskólann á Ísafirði. Ég kallaði fram í að það væri vegna samgangna. Ég held að það sé akkúrat þannig. Samgöngur standa því fyrir þrifum að fólk á suðurfjörðum Vestfjarða nýti sér framhaldsskólann á Ísafirði.

Ég er hins vegar mjög sammála því sem hér kemur fram og hefur verið rætt hér, að það eigi að reyna að færa framhaldsskólana til sveitarfélaga. Það sem stendur í veginum er hins vegar að finna því farveg svo og samkomulag við ríkið, sérstaklega er snýr að fjárveitingum. Menn hafa svolítið brennt sig á tilfærslu grunnskólans og á þeim verkum sem þurfti að fara þar í gegnum. Það fylgdi því ekki nægt fé í upphafi þó það sé kannski orðið nú. Þess vegna stíga sveitarstjórnarmenn þessi skref varlega. Umræðan um sameiningu sveitarfélaga einkenndist einmitt af örðugleikunum um skiptingu fjárins.