132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Rekstur framhaldsskóla.

443. mál
[12:58]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Aðalatriðið er að hafa hér öflugt skólakerfi, fjölbreytt skólakerfi, öflugt og burðugt, til að það standist samkeppni við aðrar þjóðir. Ég mun ekki útiloka það að framhaldsskólinn fari til sveitarfélaga. En þetta er lykilatriði. Menn skulu ekki fara blindir þá vegferð að láta framhaldsskólann yfir til sveitarfélaganna. Það er ekki hægt að bera þetta saman við grunnskólann því í grunnskólanum er um skólaskyldu að ræða, ekki í framhaldsskólanum.

Við skulum líka hafa í huga að sveitarfélögin eru á engan hátt hlutlausir áhorfendur að þróun náms á framhaldsskólastigi. Þau eru oft og tíðum frumkvöðlar eins og varðandi menntaskóla Borgarfjarðar og menntaskóla við utanverðan Eyjafjörð. Þau eru oft frumkvöðlar og þátttakendur í að koma nýjum skólum á legg. Ég vil líka draga það fram að skólanefndir allra framhaldsskólanna eru að mestu skipaðar heimamönnum þannig að sveitarfélögin koma að þessu. Menn verða að horfa á heildarmyndina. Ég spyr: Ef menn geta ekki leyst úr einföldu máli varðandi tónlistarskólana — sveitarfélagið hér, þ.e. höfuðborgin er með allt niður um sig í því máli. Tónlistarskólanemendur í dag eru að senda kæru inn í félagsmálaráðuneyti. (JÁ: Hefur þú gert eitthvað í þessu?) Ef sveitarfélögin, hv. þingmaður, geta ekki leyst þetta mál sín á milli hér á höfuðborgarsvæðinu, hvernig í ósköpunum ætla þau þá að leysa millifærslu fyrir 20 þúsund nemendur? Ég hefði kannski skilið það ef þéttbýlisþingmaður hefði komið fram með þessa tillögu. En að landsbyggðarþingmaður, þar sem líklegt er að slík breyting mundi leiða til tvískipts kerfis, eins og ég gat um áðan, skuli koma með þetta fram, vekur ákveðna undrun.

Ég ítreka að það er ekki aðalatriðið hver rekur skólann, hvort það er ríki, sveitarfélög eða einkaaðilar. Aðalatriðið er að halda uppi öflugu skólakerfi, fjölbreyttu skólakerfi, þannig að við getum útskrifað stúdenta sem jafnast á við þá bestu sem finnast.