132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Svæðisútvarp á Vesturlandi.

486. mál
[13:04]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hygg að reynslan af svæðisstöðvum Ríkisútvarpsins sé ákaflega góð og sú starfsemi sem þar fer fram skipti mjög miklu máli, ekki bara fyrir þá landshluta þar sem stöðvarnar eru starfræktar heldur líka fyrir þjóðina alla. Ég hef fylgst grannt með þessum stöðvum og verð að segja að ég er mjög ánægður með efnið á öllum þessum stöðum. Það styrkir sjálfsvitund og sjálfstraust viðkomandi landshluta þegar fréttir berast af svæðinu, t.d. í kvöldfréttatímum sjónvarps eða fréttatímum útvarpsins. Ég held að í byggðalegu tilliti hafi þetta mjög jákvæð áhrif og kannski meiri áhrif en við gerum okkur grein fyrir. Ég mundi vilja hvetja Ríkisútvarpið til að íhuga vandlega að koma upp slíkri stöð á Vesturlandi. Það er full ástæða til að svo verði gert.