132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Þjónusta svæðisútvarps.

487. mál
[13:15]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum enn að ræða um svæðisútvarp en eins og fram kom í máli fjölmargra þingmanna, og reyndar allra þeirra sem hér töluðu áðan, eru svæðisútvörp mjög gagnlegur og merkilegur miðill og gegna mikilvægu hlutverki. Svæðisútvörpin afla sér efnis á mismunandi vegu. Hjá þeim eru fastir starfsmenn, mismargir eftir umfangi starfseminnar á hverjum stað, á Egilsstöðum, Akureyri, Selfossi og Ísafirði, en auk fastra starfsmanna er um að ræða fréttaritara úti í byggðum sem eru staðsettar fjær aðalstöðvunum, þangað sem erfiðara er fyrir fastráðna fréttamenn eða starfsmenn að sækja fréttir og jafnframt erfiðara að komast á snoðir um ef eitthvað er um að vera. Það er engu að síður mjög mikilvægt að fréttir og efni berist frá þeim svæðum þjónustusvæðis viðkomandi stöðvar sem fjær liggja aðalstöðvunum, reyndar höfum við oft heyrt kvartað yfir því að það sé ákveðin tilhneiging til þess að efnisumfjöllun og fréttir séu frekar frá þeim stöðum þar sem aðalstöðvarnar eru eða stöðum sem næst þeim liggja.

Mér er líka kunnugt um að það hefur verið dregið úr starfsemi fréttaritara og reyndar hefur föstum starfsmönnum utan starfsstöðvanna verið fækkað á undanförnum árum, sem gerir aftur hlutverk fréttaritaranna enn þá mikilvægara.

Ég legg því nokkrar spurningar fyrir hæstv. menntamálaráðherra:

1. Hve hátt hlutfall af fréttaefni svæðisstöðva Ríkisútvarpsins er frá svæðum utan byggðarlagsins þar sem viðkomandi stöð er (Egilsstaða, Akureyrar, Selfoss, Ísafjarðar), sundurliðað eftir stöðvum og eftir hljóðvarpi og sjónvarpi?

2. Hve mikið af því efni er unnið af fréttariturum hljóðvarps annars vegar og sjónvarps hins vegar?

3. Hve háu hlutfalli af fréttaefni svæðisstöðvanna er útvarpað á landsrás Ríkisútvarpsins?