132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Þjónusta svæðisútvarps.

487. mál
[13:21]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Ég er nú svo hógvær maður að eðlisfari að ég ætlaði bara að bíða eftir hv. þm. Merði Árnasyni en nú hef ég komist að og við erum aftur að ræða svæðisútvörp. Auðvitað er leitt að geta ekki fengið svör við þeim spurningum sem hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir spyr en það er rétt að ítreka það hversu mikilvægar svæðisstöðvarnar eru. Þær ná yfir stórt svæði, á Egilsstöðum t.d. nær það alveg frá Vopnafirði og suður á Höfn í Hornafirði og það er mjög mikilvægt að hafa fréttaritara á öllum þessum svæðum. Ég held að við ættum frekar að beita okkur fyrir því að efla þessar stöðvar og efla þjónustu þeirra. Þær eru mikilvægar, ekki bara á hverju svæði fyrir sig heldur líka á landsrásinni. Sem betur fer er efni sem fjallað hefur verið um í svæðisútvarpinu oft tekið inn á landsrásina og þess vegna er full ástæða til þess (Forseti hringir.) að efla svæðisútvörpin frekar en hitt.