132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Þjónusta svæðisútvarps.

487. mál
[13:24]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að benda á tvennt í sambandi við þessa fyrirspurn frá hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur. Það fyrra er að líklega er hann vanmetinn sá hlutur frétta sem kemur frá starfsmönnum svæðisstöðva Ríkisútvarpsins og ratar inn í almennar fréttir útvarpsins. Ég held að menn megi ekki horfa fram hjá því að fréttaritarar eða starfsmenn svæðisútvarpa vinna ekki einvörðungu að svæðisfréttum heldur að almennri fréttaöflun fyrir Ríkisútvarpið. Mér finnst fyrirspurnin bera með sér að ekki sé hugað að því.

Ég vil einnig beina því til hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að fréttir svæðisstöðvanna verði birtar á netinu með sama hætti og venjulegir fréttatímar (Forseti hringir.) þannig að menn geti hlustað á þær á netinu síðar.