132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Þjónusta svæðisútvarps.

487. mál
[13:25]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að segja eins og er að ég held að ég hafi ekki heyrt svar sem er jafnþunnt í roðinu og svar hæstv. menntamálaráðherra hér áðan. Það var eiginlega aldeilis óvanalegt og ótrúlegt að ég fékk ekki svar við neinni af spurningunum sem ég varpaði fram. Sú staðreynd vekur auðvitað upp enn þá fleiri spurningar, þ.e. telst það ekkert mikilvægt hjá Ríkisútvarpinu að fylgjast með því hvernig þessari starfsemi er háttað innan svæðanna? Er það ekki á neinn hátt skoðað hvernig svæðisstöðvarnar sinna hlutverki sínu og er yfir höfuð ekkert eftirlit með því?

Mér þykir þetta leitt því að ég held að með slíku eftirliti og slíkri skoðun væri hægt að bæta starfsemi svæðisstöðvanna. Þó að þær séu góðar eru þær ekki algóðar, það er hægt að bæta þær, m.a. með því að efla starfsemi fréttaritara, eins og hér hefur komið fram, og skapa þeim færi á að sinna enn þá betur hlutverki sínu, að miðla fréttum innan svæðanna og frá svæðunum inn á landsrásirnar.